145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:44]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það fer ekki hjá því þegar margir hafa tekið til máls um eitt mál að maður höggvi svolítið í sama knérunn í málflutningi sínum. Það mun vafalaust gerast í ræðu minni í kvöld þegar við ræðum um frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem er í raun frumvarp um að leggja til að Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði lögð niður.

Ég hef hugsað mér að ræða þetta mál svolítið á forsendum þeirra viðmiða sem almennt eru við lýði um góða stjórnsýsluhætti og fagmennsku í stjórnsýslunni. Ég tel að með þessari ákvörðun sé verið að draga mjög úr fagmennsku þróunarsamvinnu í þessu tilviki. Með þessari ákvörðun, verði hún að veruleika eins og allt stefnir í, er í raun gengið þvert á þá stefnu sem mörkuð hefur verið í stjórnsýslunni undanfarin ár, þ.e. að stefnumótun sé á höndum stjórnmálamanna en framkvæmd og fagmennska í höndum sjálfstæðra stofnana og fagaðila.

Ég lít svo á að frumvarpið sé þess vegna vanhugsað eins og málum er háttað og ég verð sannfærðari um það eftir því sem fleira kemur fram í þessari umræðu um það sem er að eiga sér stað. Ég tel að í ljósi góðra og eðlilegra stjórnsýsluhátta sé það afturför að stíga þetta skref því að með gildum rökum má draga í efa að ráðuneytið sé í reynd fært um að taka að sér faglega hlutann af þessu starfi. Það má draga í efa að innan ráðuneytisins sé, hvað á maður að segja, raunverulegur kúltúr eða geta eða starfsmenning til að vinna að umræddum verkefnum með sama hætti og gert hefur verið innan Þróunarsamvinnustofnunar til þessa sem sjálfstæðrar stofnunar. Að minnsta kosti hafa verið settar fram efasemdir um að svo sé af fagaðilum sem ástæða er til að taka alvarlega.

Markmiðin með breytingunni eru mjög almennt orðuð í frumvarpinu. Talað er um að engin breyting verði á stefnu eða starfsemi, allir starfsmenn verði ráðnir áfram — það kemur nefnilega ekki fram í greinargerð með frumvarpinu að ekki standi til að ráða forstöðumanninn áfram og það er nú kannski sérstakt áhyggjuefni, svolítið uggvænlegur tónn í því. En svo að ég haldi mig að svo stöddu við það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins þá segir þar að öllum starfsmönnum verði gefinn kostur á að halda störfum, raunar mega þeir ekki afþakka það góða boð eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ef þeir afþakka það góða boð þá fá þeir ekki biðlaun, það stendur alveg skýrum stöfum hér á bls. 9. Og það er líka svolítið uggvænlegur tónn í því. En sem sagt, starfsmenn verða ráðnir áfram vilji þeir það. Með öðrum orðum er markmiðið með þessu ekki sparnaður enda er enginn sparnaður sjáanlegur af þessu. Það eina sem maður sér að þetta hafi í för með sér er ógagnsærri og óskilvirkari ráðstöfun fjármuna.

Lítum þá aðeins nánar á þá stofnun sem hér er lagt til að verði lögð niður. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur á síðustu árum sinnt verkefnum í Afríku sunnan Sahara, í Malaví, Mósambík og Úganda, löndum sem öll voru skilgreind sem áherslulönd í áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011 til 2014. Hún hefur sinnt jarðhitaverkefni í Níkaragva og lagt áherslu á að byggja upp grunnþjónustu í fátækum héruðum, reisa vatnsból, koma á heilsugæslu og veita aðstoð og ráðgjöf við stjórnun og nýtingu auðlinda, ekki síst við fiskveiðar og jarðhitanýtingu. Þannig hefur þessi stofnun leitast við og haft veigamiklu hlutverki að gegna við að treysta innviði í öllum þeim verkefnum sem hún hefur komið að með áherslu á mannauð og menntun og jafnrétti. Hún hefur stutt umbætur í þeim efnum, bæði í fjárfestingum til að afla neysluvatns, í heilbrigðismálum og ekki síst varðandi heilbrigði barna og mæðra.

Þetta er stofnun sem býr að 40 ára uppsafnaðri reynslu af þróunarmálum. Hún er sett á laggirnar 1981, leysir þá af hólmi eldri stofnun sem hafði starfað í 10 ár, en sú skrifstofa nefndist Aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Hún byggir því starf sitt á grunni fyrri stofnunar þannig að innan Þróunarsamvinnustofnunar hefur safnast upp þekking og fagleg geta til að sinna þeim verkefnum sem stofnunin hefur með höndum, áratuga uppsöfnuð reynsla og þekking og þarna hafa starfað á síðustu árum að jafnaði 40 til 50 manns samanlagt að þeim verkefnum sem stofnunin hefur með höndum og á aðalskrifstofu.

Nú leggur ríkisstjórnin til að leggja þetta bara niður og færa verkefnin inn í utanríkisráðuneytið, eins og það er orðað. Allir starfsmenn nema forstöðumaðurinn, eins og komið hefur fram í umræðum hér í kvöld, eiga að halda áfram, engin breyting á að verða á starfseminni og þá spyr ég: Til hvers eru refirnir skornir? Ef engin breyting á að verða og engin hagræðing fylgir, til hvers er þá verið að raska því mikilvæga starfi sem stofnunin hefur innt af hendi? Eins og sagt var hér fyrr í kvöld: Ef verkfærið er í lagi, hvað á þá viðgerðin að þýða?

Þetta með forstöðumanninn sem ekki fær ráðningu er auðvitað gróf skilaboð og nöturleg til annarra forstöðumanna í stjórnsýslunni og lofar ekki góðu fyrir faglegt sjálfstæði stofnana almennt og yfirleitt. Ég verð að viðurkenna að það er ógn í lofti í þessari umræðu, annars vegar í ljósi þessa og hins vegar þess sem við ræddum um biðlaunarétt þeirra starfsmanna sem afþakka starf í hinu hæstv. utanríkisráðuneyti.

Rökstuðningurinn fyrir þessari ákvörðun er líka allur í skötulíki. Þegar málið kom fyrst fram var talað um að koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd og talað um að draga úr óhagræði og tvíverknaði, eins og það var orðað. Þau orð eru raunar tekin orðrétt úr skýrslu Þóris Guðmundssonar sem gerð var í aðdraganda frumvarpsins, en það er náttúrlega rétt að benda á og kannski hefur það komið fram hér í umræðunni að skýrsluhöfundur, sem er reyndar ágætismaður og almennt vel metinn, er starfsmaður Rauða krossins. Það vill svo óheppilega til í þessu samhengi að Rauði krossinn er í raun og veru samkeppnisaðili við Þróunarsamvinnustofnun, bæði um fjármuni og verkefni. Í ljósi þess er auðvitað óheppilegt að það skuli vera starfsmaður Rauða krossins sem gerir skýrslu sem síðan er notuð sem rök fyrir því að leggja þessa stofnun niður. Það er kannski líka rétt að það komi fram að hvorki í skýrslu Þóris né í frumvarpinu sjálfu er að finna rökstuðning fyrir óhagræði eða tvíverknaði innan Þróunarsamvinnustofnunar þó að þau hugtök séu notuð.

Fyrst við erum að tala um skýrslur þá má benda á úttekt sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur gerði árið 2008 um þessa stofnun þar sem hún taldi að það mundi veikja faglega stefnumótun í þróunarsamvinnu að færa stofnunina inn í ráðuneytið. Raunar hafa komið fram skýrslur sem sýna gagnsemi þess að færa verkefni frá ráðuneytinu inn í Þróunarsamvinnustofnun. Það hlýtur auðvitað líka að vekja umhugsun að Ríkisendurskoðun hefur lagt áherslu á í athugasemdum til stjórnvalda að skilið sé á milli framkvæmdar og eftirlits, en eins og nú er háttað þá framkvæmir Þróunarsamvinnustofnun stefnu stjórnvalda og Alþingi hefur síðan eftirlit með framkvæmdinni. Sú breyting sem hér er lögð til gengur þvert gegn því.

Hér hefur komið fram í umræðunni, sem ég vil árétta og hnykkja á, að í skýrslu þróunarsamvinnunefndar OECD, svokallaðrar DAC-nefndar, sem gerð var árið 2012, er Íslendingum hrósað fyrir skilvirkni og góðan árangur í þróunarsamvinnu. DAC-nefndin kom í þessari skýrslu með ábendingar sem lutu að mikilvægi þess að skerpa á stefnumótun og skiptingu fjár í tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu vegna þess að á ritunartíma þeirrar skýrslu var fyrirhuguð mikil aukning á framlögum til þróunarsamvinnu. Sú stefna hefur nú aldeilis breyst í tíð núverandi ríkisstjórnar sem gengur skrefinu lengra með tillögu um að leggja stofnunina hreinlega niður.

Herra forseti. Þessi tillaga, þetta frumvarp, er í mínum augum bráðræði, þó ekki væri nema vegna þess að nú er DAC-nefndin að gera úttekt á Þróunarsamvinnustofnun og sú úttekt lítur dagsins ljós innan tíðar. Væri nú ekki ráð að bíða þeirrar niðurstöðu frekar en að fara fram með þessum flumbrugangi? Hér er verið að taka faglegt starf úr höndum sjálfstæðrar stofnunar og draga það inn að hinum heita pólitíska barmi ráðherrans. Afleiðingin verður ógagnsæi við ákvarðanatöku og val verkefna og óskilvirkari ráðstöfun fjármuna. Það eitt og sér er afturför. Það er skref sem gengur gegn faglegri uppbyggingu í stjórnsýslu okkar.

Herra forseti. Málið eins og það liggur fyrir er fljótfærnislegt. Það gefur vont fordæmi og það er ógnvekjandi keimur af því fyrir sjálfstæði og fagmennsku stofnana.