145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði um nálægð þessa máls við heitan pólitískan barm ráðherrans, svona var þetta orðað með skáldlegum tilþrifum sem kemur nú ekki á óvart úr munni þessa hv. þingmanns, sem er bæði orðhög og hagmælt að auki. En þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál og ég vil nota tækifærið hér í andsvari til að víkja að því, en óska jafnframt eftir því við hæstv. forseta þingsins að ég verði settur á mælendaskrá að nýju því að ég vil ræða málið nánar, sem ég hafði augljóslega að einhverju leyti misskilið í fyrri ræðu minni.

Ég vil að svo stöddu segja að embættismenn eru almennt ráðnir til fimm ára. Hin almenna regla er sú að þeir fá endurnýjaða ráðningu, það eru undantekningarnar sem ganga út á það að störfin eru auglýst að nýju, það heyrir til undantekninga. Það mætti hugsa sér almenna reglu þar sem það væri viðtekið hjá öllum að störfin yrðu auglýst að nýju en svo er ekki. Þess vegna væri um að ræða undantekningu sem er mjög óeðlileg við þær aðstæður sem hér eru uppi, eins og rækilega hefur verið vakið máls á.

Ég vil gjarnan heyra álit hv. þingmanns nánar um þetta efni vegna þess að við eigum ekki að láta þetta fjara út í umræðunni. Hér erum við einmitt að tala um nálægð pólitísks hitamáls við hinn heita pólitíska barm Stjórnarráðsins.