145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:23]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er ekki nægilega kunnugur tillögum hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, og ætla kannski sem minnst um þær að segja, en miðað við það sem lagt var fram tel ég að þróunarsamvinnu verði aldrei ýtt út úr utanríkisráðuneytinu. Málefni þróunarsamvinnu verða alltaf á málasviði utanríkisráðuneytisins að óbreyttri starfaskiptingu Stjórnarráðsins.

Það fer aldrei öll þróunarsamvinna út úr ráðuneytinu. Það verður alltaf einhver þróunarsamvinna á „ráðuneytis-level“, ef svo má segja, í heimalandi ráðuneytis, í því landi sem þróunaraðstoðina veitir. Ég held ekki að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra hafi átt við annað. En eins og ég segi, með öllum fyrirvörum; það er skoðun mín að þróunarsamvinnu verði aldrei ýtt allri út úr ráðuneytinu.

Ég hef lokið máli mínu.