145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hefði varla getað orðað það betur sjálf, það er óþarfi að skakast til með stofnanir ef markmiðið er ekki ljóst og allar staðreyndir liggja ekki fyrir. Það fer ágætlega á því hér þegar klukkan er að nálgast miðnætti að umræðan sé dregin saman með svo skýrum hætti, því að það er nákvæmlega það sem bent hefur verið á í ítrekuðum ræðum þingmanna að rökin fyrir þessari tillögugerð hæstv. ráðherra eru enn þá mjög óljós. Ég fagna því ef hv. þingmaður er sammála þeirri sem hér stendur að minnsta kosti um að hér megi staldra við og að skoða megi grundvöllinn betur, enda hefur Ríkisendurskoðun sjálf varað við því fyrirkomulagi að einn og sami aðilinn móti stefnuna, framkvæmi hana og hafi eftirlit með henni. (Forseti hringir.) Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það sé einmitt það sem við þurfum að gæta að þegar við skipum stjórnsýslunni í eðlilegar og skynsamlegar einingar?