145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ólán hæstv. ráðherra en líkast til lán hv. þingmanns að hann er vitsmunavera. Hann lætur ekki reka sig til réttar nema hann sé nákvæmlega viss um til hvers hann sé að fara í þann leiðangur.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um það hér fyrr í kvöld að það væri búið að margtyggja þetta mál og margræða og varð hissa þegar hann var upplýstur um það að það hefði varla verið nema dagspart eða tvo hér í þinginu. Ástæða þess var sú að hv. þingmaður, sem er samviskusamur og mætir vel á nefndarfundi, sat ótal marga nefndarfundi þar sem fjallað var um þetta mál upp og niður. Þar var skorið til hjartans og nýrnanna, allt rannsakað í þaula.

Það er niðurstaða þessa viti borna manns, sem gegnir stöðu þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að eftir alla þá yfirferð kemur hann ekki auga á neinn sparnað. Hann sér ekki hagræði og hann veit yfirleitt ekki til hvers hæstv. ráðherra er að fara í þennan leiðangur. En hann er ekki einn á báti, svo er um okkur öll. Það hefur engum tekist að skýra það fyrir þingheimi eða utanríkismálanefnd hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra. Ég held ekki að þetta mál hafi upphaflega snúist um persónu eins eða neins. Illu heilli er það farið að snúast upp í það og það er mjög miður. Ég held einfaldlega að hæstv. ráðherra hafi verið plataður af embættismönnum sínum til þess að leggja fram málið. Hann lenti í ógöngum með það en hann hefur engin önnur mál og það er ástæðan fyrir því að kjarni utanríkisstefnunnar eins og hún birtist af hálfu hæstv. ráðherra er að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Hann hefur ekki lært af sögunni eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason að menn eigi ekki að skakast með stofnanir nema að það sé eitthvert markmið með þeim leiðangri. Og mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Kemur hann auga á einhver sérstök rök, (Forseti hringir.) eitthvað sem hægt er að nota sem lágmarksréttlætingu, annað en það að búa til þrjá nýja sendiherra, fyrir þessu máli?