145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það segi sína sögu að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason þorir ekki að tala hug sinn frítt hér í ræðustól. Honum er svo mikið niðri fyrir og fyrirlitning hans á þessum vinnubrögðum er slík að með tilliti til mannasiða og kannski þess að aðgát skal höfð í nærveru sálar vill hann ekki hella úr hugum sínum yfir hæstv. ráðherra. Ég skil það vel, hv. þingmaður er vel innréttaður af guði og náttúrunni og vill helst tipla sem varfærnast og diplómatískt um allar gáttir. Hins vegar finnst mér skipta máli að þessi þingmaður, sem situr í utanríkismálanefnd, er reyndar einn af burðarásum þeirrar nefndar af hálfu stjórnarliðsins, hlustaði á allar umræður, mætti á hvern einasta fund og hann hefur ekki hugmynd um af hverju hæstv. ráðherra gerir þetta. Það sem verra er, hæstv. ráðherra hefur það ekki heldur.