145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Í bréfi Páls postula til Korintumanna þar sem fjallað er um kærleikann er kærleikurinn persónugerður. Hann er sagður breiða yfir allt, vona allt, trúa öllu og umbera allt. Hann fellur aldrei úr gildi og það er ágætt viðmið þegar maður fæst við siðferðileg álitamál að reyna að setja sig í spor kærleikans. Þegar kemur að málefnum flóttamanna á það sérstaklega vel við. Kærleikurinn mundi ekki í slíkri krísu sem upp er komin stofna ráðherranefnd. Kærleikurinn mundi ekki velta fyrir sér hvort það væru nægilega margir sérfræðingar í landinu til að bregðast við vandanum. Hann mundi, held ég, bregðast hraðar við en hér er verið að gera. Það er með eindæmum að verða vitni að því vegna þess að byrjunin lofaði ágætu, yfirlýsingar ráðherra í ríkisstjórninni og viðbrögð ríkisstjórnarinnar virtust benda til þess að menn ætluðu að hafa hraðar hendur.

En það er ekkert að gerast. Það segir í fyrrnefndu bréfi Páls postula að kærleikurinn sé langblindur en að hann sé ekki langrækinn. Ég held að hann sé ekki heldur svona lengi að. Nú verður ríkisstjórnin að fara að hysja upp um sig buxurnar í þessum efnum vegna þess að hún er að verða okkur til skammar á alþjóðavettvangi með áframhaldandi slyðruskap.

Hér í þingsal í gær var verið að ræða þá fyrirætlan utanríkisráðherra að færa Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið. Það er ekki brýnasta verkefnið í þróunarmálum í dag, brýnasta verkefnið er að taka með almennilegum hætti og í anda kærleikans á þeirri gríðarlega erfiðu stöðu sem upp er komin í Evrópu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna