145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í október árið 2014 var sett lögbann á tvo vefi, Pirate Bay og deildu.net. Var nokkrum fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að loka á þessa vefi. Þá bentum við píratar á, sem enn er satt, að lágmarksþekking á internetinu dygði til að komast fram hjá svona lokunum. Því spáðum við tvennu, í fyrsta lagi að grunnþekking á internetinu yrði gerð tortryggileg. Þegar ég hótaði að kenna fólki að setja inn annan DNS-þjón, sem er sennilega það allra fyrsta sem það lærir um innviði internetsins, var þeirri grunnþekkingu líkt við að veita innbrotsþjófum lykla að annarra manna húsum. Fráleit samlíking en við henni var að búast. Í öðru lagi spáðum við því að rétthafar mundu ganga lengra því að þessar aðferðir mundu fyrirsjáanlega aldrei virka.

Sú aðferð að stöðva höfundarréttarbrot með því að loka vefsíðum getur nefnilega ekki gengið fyrr en hún hefur gengið of langt. Það er ástæða fyrir því að lögbannskröfur fara í gegnum sýslumenn og dómstóla. Það er vegna þess að lögbann er mjög mikið inngrip. Í frjálsu samfélagi lokar maður ekki á vefi eða gerir rit upptæk nema fyrir því séu ríkar ástæður, líklegt sé að lögbannið skili tilætluðum árangri og að fórnarlamb hindrunarinnar geti varið frelsi sitt og réttindi sín.

Nú berast fréttir af því að rétthafar og svokölluð helstu fjarskiptafyrirtæki Íslands hafi gert með sér samkomulag um að loka einfaldlega vefsetrum án lögbanns, sama á hvaða léni þau finnast, ef þar er talið vera Pirate Bay eða deildu.net. Þetta eru hundruð ef ekki þúsundir vefsvæða sem hvorki sýslumaður né dómstólar munu hafa neitt um að segja. Nú tekur við ferli þar sem menn loka vefjum hægri og vinstri án aðkomu dómstóla. Það er nákvæmlega þessi þróun sem við vöruðum við, og vörum við enn því að hún mun halda áfram. Að stilla DNS-þjóninn á tölvunni sinni t.d. á DNS-þjóninn hjá Google, 8.8.8.8, verður gert tortryggilegt, aftur, og menn munu þurfa að ganga enn þá lengra, aftur, eins og við spáðum fyrir í fyrra og spáum fyrir nú.


Efnisorð er vísa í ræðuna