145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Willum Þór Þórsson hér áðan vegna þess að ég hef þó nokkrar áhyggjur af þeim verðlagshækkunum sem komið hafa í ljós eftir kjarasamningana í vor og kjarasamninga sem ekki eru orðnir enn. Vaxtaokrið hjálpar reyndar ekki til en nú er samt tækifæri, tel ég, til að hamla verðhækkunum.

Til dæmis má benda á að íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum síðastliðna 12 mánuði, væntanlega um 3–4%.

Það er eitt fyrirtæki sem hefur haft kjark til þess að nýta þetta svigrúm, það er IKEA. Ég tel að það sé næsta víst að fleiri fyrirtæki geti fylgt í kjölfarið. Það er veltuaukning í allri smásöluverslun. Þær kauphækkanir sem lenda á smásöluversluninni af völdum kjarasamninganna þetta árið eru ekki meiri en svo að verslunin á að geta hagrætt fyrir þeim. Ég tel í sjálfu sér að verslunarmenn eigi nú, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að gera sáttmála um það að hér verði ekki verðlagshækkanir næstu mánuðina, að menn haldi aftur af sér.

Þetta er fullkomlega gerlegt og ég held að það hljóti að vera einn liður í því að þetta geti komist á að gerð sé eigendastefna hjá lífeyrissjóðunum í landinu, sem eru stærstu eigendur stærstu matvörukeðja á Íslandi, um að halda aftur af verðlagshækkunum á hvaða sviði sem nefnt er, þar er með talin nýorðin hækkun á landbúnaðarafurðum sem var óheppileg og kom á óheppilegum tíma.

Allir þessir aðilar eiga að setjast niður saman og finna leið til þess að koma í veg fyrir verðbólguholskeflu.


Efnisorð er vísa í ræðuna