145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem hafa fylgst með útvarpi í dag hafa kannski tekið eftir því að þar eru núna að koma fram áskoranir frá Íslendingum til stjórnvalda, í samlesnum auglýsingum Ríkisútvarpsins, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ég skora á stjórnvöld að taka ákvörðun um komu flóttamanna án tafar. Verum manneskjur.“

Svo skrifar fólk nafn sitt undir þetta og birtir í fjölmiðlum.

Hvers vegna? Það er vegna þess að fólk er orðið óþreyjufullt, alveg eins og við, eftir aðgerðum. Það er ekki vegna þess að menn vilji klekkja á stjórnvöldum eða vera með andstyggilegheit eða neitt slíkt heldur vegna þess að við erum öll full af miklum, miklum vilja og þörf til að grípa inn í og hjálpa við þær aðstæður sem nú blasa við okkur.

Það eru 60 milljónir manna á vergangi, risastór hluti þessa fólks eru börn og mikið af þeim börnum eru ein á vergangi og lenda í klónum á misindismönnum. Þannig er það bara, það sýnir sig alltaf við svona aðstæður.

Þess vegna er þessi krafa um að menn grípi hratt og örugglega inn í. Ég skil ekki af hverju við þurfum að hafa þetta í einhverjum nefndum og í svona löngu ákvarðanatökuferli og undirbúningsferli, þegar við erum með á annan tug sveitarfélaga sem hafa boðist til að taka við flóttamönnum. Við erum með sterka innviði. Við erum með sveitarfélög sem eru tilbúin í þetta verkefni. Þau kunna þetta, að reka samfélög með viðkvæma málaflokka. Eftir hverju erum við að bíða?

Ég er ánægð með að hér inni er þverpólitísk samstaða um móttöku flóttamanna. Það er kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda frá þingmönnum allra flokka. Nú verðum við að fara að heyra frá ríkisstjórninni, hún verður að fara að leggja fram áætlun um það hvernig þetta verður gert. Við getum ekki beðið lengur. Þetta fólk getur ekki beðið lengur.


Efnisorð er vísa í ræðuna