145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hingað upp og taka undir með öllum þeim sjónarmiðum sem ég hef heyrt hér um flóttamenn og flóttamannavandann og vona að stjórnvöld taki það til sín. En mig langar líka að koma hingað upp og lýsa yfir ánægju minni yfir því að framkvæmdir séu hafnar á Hlíðarenda í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Þar er stigið skref í þá átt að nýta það landsvæði betur og byggja Vatnsmýrina upp sem ég tel gríðarlega mikilvægt, byggð sem mun skipta sköpum fyrir þróun borgarinnar og þar með samkeppnishæfni landsins alls við þau lönd sem við kjósum að bera okkur saman við.

Í uppbyggingu í Vatnsmýrinni felst einstakt tækifæri til að gera Reykjavík að betri, þéttari, sjálfbærari og hagkvæmari borg, en stefnan um þéttari og sjálfbærari byggð hefur verið ríkjandi í skipulagsáætlunum flestra vestrænna borga síðustu 20–30 árin. Þróun byggðar á flugvallarsvæðinu leggur grunn að nýjum vaxtarpól atvinnulífsins á sviði háskóla, rannsókna og hátækni sem þessi ríkisstjórn ætti einmitt að taka fagnandi vegna þess að hún hefur, með nýju fjárlagafrumvarpi, aukið fjárframlög til nýsköpunar og tækni. Í Vatnsmýrinni munu þessi fyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki, eiga heima og framtíðarmöguleikar þeirra ráðast. Þar fyrir utan er vert að minna á að lokun flugvallarins mun bæta hljóðvist og önnur umhverfisgæði í vesturhluta borgarinnar og byggð sem áður lá undir fluglínu mun njóta meira öryggis.

En talandi um öryggi þá sé ég ástæðu til að taka hér undir bókun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. september. Þar kemur fram að öryggisúttekt Isavia um lokun þriðju brautarinnar dregur fram að óhætt er að loka brautinni þegar horft er til viðmiða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Notkunarstuðull reiknast þar 97%, en alþjóðlegt viðmið er að hann eigi ekki að fara niður fyrir 95%. Þegar metnar eru raunverulegar aðstæður, byggt á nákvæmum vindmælingum, ástandi flugbrauta, skyggni og skýjahæð og raunverulegri notkun í innanlandsflugi og sjúkraflugi, er nýting vallarins, (Forseti hringir.) miðað við að þriðju brautinni sé lokað, enn betri og jafnvel yfir 98%. Þar með ætti að vera ásættanlegt að loka þriðju brautinni.


Efnisorð er vísa í ræðuna