145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseta. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og rætt þær hörmungaraðstæður sem flóttafólk býr við í Evrópu í dag. Ég vil, eins og aðrir þingmenn hér, hvetja ríkisstjórnina til þess að taka ákvörðun samhliða sveitarfélögum um með hvaða hætti við viljum bjóða flóttamenn velkomna til okkar lands og hve marga.

Það er rétt sem hér hefur verið sagt að við búum á eyju norður í Atlantshafi og sjáum og kynnumst af afspurn þeim hörmungum sem ríkja í Evrópu í dag, þeim fólksflutningum sem eiga sér stað og því hörmungarlífi sem þetta fólk býr við. Við þekkjum það af afspurn. Við erum sem betur fer þannig í sveit sett, ef við getum orðað það svo, að þetta hendir ekki okkur hér á þessu landi nema í gegnum fjölmiðla þar sem við horfum á hörmungar þessa fólks. Þess vegna eigum við, af okkar allsnægtum sem við höfum í þessu landi, að taka við flóttamönnum, sem við munum gera, og gera það á jafn virðingarverðan hátt og hefur sýnt sig til dæmis þegar flóttakonur frá Írak voru boðnar velkomnar á Akranes ásamt sínum börnum, þegar við höfum tekið við flóttafólki frá Kólumbíu og víðs vegar annars staðar frá.

Við getum og eigum að vera stolt af þjóðinni okkar, okkar innviðum, en við eigum líka að bera höfuðið hátt og horfa til þess að fólk frá öðrum löndum með aðra menningu getur auðgað okkar samfélag og verið partur af því eins og þeir sem hingað hafa komið eru.


Efnisorð er vísa í ræðuna