145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera hér til andsvara í þessari umræðu sem ég taldi brýnt að eiga í ljósi þeirra frétta sem lágu í loftinu um að ríkisstjórnin hygðist ekki í fjárlagafrumvarpi gera ráð fyrir hækkun bóta almannatrygginga til samræmis við hækkun lágmarkslauna og til að inna eftir frekari upplýsingum um aðra þætti er varða afkomu ellilífeyrisþega og öryrkja, endurbætur á almannatryggingakerfinu, sem hafa strandað á peningum, og uppbyggingu hjúkrunarrýma sem líka hafa strandað á fjárveitingum.

Ef við byrjum á tekjum lífeyrisþega og því sem við lesum í fjárlagafrumvarpinu þá eru það 10.700 lífeyrisþegar sem fá sérstaka uppbót á framfærslu sem fá ekkert annað en lágmarksbætur almannatrygginga. Það er líka þannig að um 70% öryrkja og aldraðra eiga ekki rétt á heimilisuppbót þar sem þeir búa með öðrum. Í frumvarpi okkar samfylkingarmanna sem liggur fyrir Alþingi, um hækkun bóta almannatrygginga upp í 300 þús. kr. á gildistíma kjarasamninganna, er farið eins varlega í það mál og mögulegt er til að reyna að freista þess að fá eins víðtæka samstöðu um það og mögulegt er. Þannig bindum við 300 þús. kr. bara við þá sem njóta heimilisuppbótar. Við göngum ekki lengra en það sem þó væru rík rök til.

Boðuð hækkun lífeyris almannatrygginga upp á 9,4% í fjárlagafrumvarpinu mun ekki ná sama árangri og hækkun lágmarkslauna því að bæði er gert sérstakt átak með kjarasamningunum til hækkunar lágmarkslauna og svo kemur sú hækkun átta mánuðum fyrr til framkvæmda á þessu ári. Staðreyndin sem við búum við núna, um afkomu lífeyrisþega sem ekki hafa annað að reiða sig á, er sú að þeir sem njóta heimilisuppbótar lifa af 192 þús. kr. á mánuði eftir skatt en samkvæmt nýjustu neyslukönnunum Hagstofunnar eru meðaltalsútgjöld einhleypinga til neyslu 321 þús. kr. á mánuði. Það er þessi gjá sem er það viðfangsefni sem hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að brúa. Staðreyndin er líka sú að vegna viðbótarskerðinga er það þannig að jafnvel þó að ellilífeyrisþegi í þessari stöðu hefði 70 þús. kr. úr lífeyrissjóði þá fengi hann lítið meira til ráðstöfunar vegna gagnkvæmra skerðinga.

Það er líka mikilvægt að setja sjónir á endurskoðun almannatryggingakerfisins. Þar er búið að vinna mikla vinnu á undanförnum árum. Fullbúnar tillögur lágu hér fyrir við upphaf kjörtímabilsins og sitjandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir frekari vinnu í því. Það er óskaplega mikilvægt að öll sú vinna sem lögð hefur verið í þá endurskoðun verði ekki til einskis, heldur verði henni komið í höfn.

Það þarf bæði að bæta kjör ellilífeyrisþega og tryggja að öryrkjar geti nýtt starfsgetu sína og endurheimt hana ef mögulegt er en tapi ekki öllum ávinningnum af því að vinna, eins og nú er þegar þeir tapa nærri 80 aurum af hverri krónu í skatta og skerðingar. Ríki og einkafyrirtæki þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og skapa sveigjanleg störf, hlutastörf, til að gefa fólki færi á að nýta takmarkaða starfsgetu.

Hjúkrunarrýmin eru svo alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Ríkisstjórnin hefur, frá því að hún tók við, skert Framkvæmdasjóð aldraðra samtals upp á 2 milljarða kr., 2 þús. milljónir, sem hafa runnið úr framkvæmdasjóðnum sem á að fara í uppbyggingu hjúkrunarrýma í rekstur.

Uppsöfnuð þörf Landspítala er núna 80 rými og þar liggur fólk inni sem kemst ekki í hjúkrunarrými. Það þarf um 100 hjúkrunarrými á ári á höfuðborgarsvæðinu einu um ókomna tíð vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra. Það er ekkert fé til að halda áfram með uppbyggingaráætlunina en nú er að finna í fjárlagafrumvarpinu 300 milljónir til að mæta kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við byggingu þriggja hjúkrunarheimila. Ef maður setur þann pening í samhengi við það sem þegar hefur verið rýrt ættum við í reynd fyrir þremur hjúkrunarheimilum ef framkvæmdasjóðurinn hefði ekki verið rýrður um 2 þús. milljónir á þessu kjörtímabili. Það er sérkennilegt að sjá að eina framlagið í þessa uppbyggingu nú skuli vera þessar 300 milljónir (Forseti hringir.) þegar ríkið er á sama tíma að telja sér til sparnaðar að aldraðir sem þurfa að þiggja vasapeninga inni á hjúkrunarheimilum (Forseti hringir.) eru að greiða svo mikið fyrir þá þjónustu að ríkið er að spara sér (Forseti hringir.) 80 milljónir á móti, með því að skammta öldruðu fólki rétt rúmlega 70 þús. kr. á mánuði til að lifa af.