145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Staðan í búsetumálum aldraðra er alvarleg en það er fyrirséð að öldruðum, sem hlutfalli af íbúum Íslands, mun fjölga á næstu árum. Það ætti því að vera nokkuð ljóst að aukin þörf verður á hjúkrunarrýmum í framtíðinni og staðan eins og hún er núna í dag er sú að fólk er að komast allt of seint inn á hjúkrunarrými.

Mikilvægt er að fara að huga að þessu strax og þess vegna má ekki slá af kröfunum um aðgengi í nýbyggingum. Ef aðgengi í almennu húsnæði er gott getur fólk búið lengur á eigin heimili og þar með minnkar þörfin fyrir sérstök hjúkrunarrými.

Það liggur fyrir endurskoðun á almannatryggingakerfinu og ég held að allir séu sammála um að kerfið þurfi að einfalda, þó ekki væri nema vegna þess að í einfaldara og skiljanlegra kerfi getur fólk frekar staðið vörð um réttindi sín. Að sjálfsögðu á kerfið svo að vera þannig að það hvetji fólk til þátttöku á vinnumarkaði. Það er ekki bara gott fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir samfélagið allt. Í því efni verður líka að beina því til atvinnulífsins að það verði að ráða fólk með skerta starfsgetu í vinnu.

Almannatryggingakerfið er öryggisnet okkar allra því að við getum öll misst heilsuna hvenær sem er og þurft að reiða okkur á það. Gæði almannatryggingakerfisins eru því mælikvarði á velferðarsamfélagið.