145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst þegar frumvarp um Þróunarsamvinnustofnun Íslands kom fram í dagsljósið fannst mér það ekki vera ýkja stórt mál. Um var að ræða skipulagsbreytingar. Það skipti höfuðmáli að tryggja þá starfsemi sem væri innan veggja Þróunarsamvinnustofnunar hvar sem hún væri vistuð. En eftir því sem ég kynni mér málið betur, og ég hef hlustað á umræður um það, því verra finnst mér málið. Staðreyndin er sú að gegn þessum skipulagsbreytingum hafa verið færð mjög ítarleg og málefnaleg rök af ýmsu tagi, en ég fæ ekki komið auga á nein rök af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sem flytur málið. Hvorki er þau að finna í greinargerð frumvarpsins né í málflutningi hæstv. ráðherra þegar hann kynnti málið. Og það á við bæði í vor og síðan aftur núna.

Við fórum yfir þessi mál í umræðu í þinginu í gær og ég ákvað að kveðja mér hljóðs að nýju, sérstaklega út af einum þætti málsins sem snýr að starfsmannamálum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að öllum núverandi starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði tryggð vinna innan veggja ráðuneytisins fari svo að þetta frumvarp verði að lögum og Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði lögð niður en starfsemin færð undir regnhlíf stofnunarinnar.

Síðan kom fram í umræðunni að það er ekki alls kostar rétt. Starfsmennirnir eiga að sönnu að flytjast — að undanteknum einum og það er forstöðumaðurinn sjálfur. Nú stendur það upp úr hæstv. ráðherra og öllum sem ég hef heyrt fjalla um Þróunarsamvinnustofnun að þessi tiltekni starfsmaður, þessi forstöðumaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sé einkar góður, hann hafi staðið sig vel í starfi og að ekkert sé að hans störfum að finna. Á það hefur verið bent að réttarstaða starfsmanna sé mismunandi, annars vegar sé um að ræða almenna starfsmenn og hins vegar embættismenn eða sem séu ráðnir á forsendum embættismanna. Hverjar eru þær forsendur? Jú, embættismaður skal ráðinn til fimm ára í senn samkvæmt lögum sem um það gilda frá árinu 1996, tóku gildi í ársbyrjun 1997. Ef hugur ráðamanna stendur til að breyta til skal honum greint frá því með tilteknum fyrirvara. Það er það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur gert, hann hefur sent viðkomandi forstöðumanni bréf þar sem honum er greint frá þessu. Þarna er komið frávikið frá lagatextanum eða skýringartexta laganna sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu. Þetta á sem sagt ekki við um alla starfsmenn.

Ég verð að segja að þegar horft er til skipulagsbreytinga undangenginna ára hafa iðulega verið settar klásúlur inn í lögin um réttarstöðu starfsmanna og þar á meðal að þeim skuli tryggt áframhaldandi starf við nýjar aðstæður. Þá hefur það átt við um alla starfsmenn, jafnt almenna starfsmenn sem stjórnendur sem búa við ráðningarkjör áþekk þeim sem forstöðumaður Þróunarsamvinnustofnunar gerir. Þess vegna hef ég gengið eftir því að ráðherrann taki af allan vafa um að farið verði að þessum lögum. Því miður hefur orðið misbrestur á því í ýmsum efnum, ég nefni til dæmis samgöngustofnanirnar, (Forseti hringir.) að núverandi ríkisstjórn hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru starfsmönnum í tengslum við þær breytingar. Það má ekki endurtaka sig.