145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gefnar hafa verið yfirlýsingar um að um tvíverknað sé að ræða og að misræmi sé að finna í kerfinu án þess að fyrir því séu færð nokkur einustu rök, eins og hv. þingmaður vísaði til í greinargerð frumvarpsins og við vékum að í gær, ég gerði það meðal annarra. Ég er alveg sammála því að það er tvímælalaust til þess fallið að grafa undan trúverðugleika stofnunarinnar en það grefur líka undan trúverðugleika ráðuneytisins að halda slíku fram án þess að geta fært trúverðug rök fyrir máli sínu.

Það sem mér hefði fundist vera verðugt verkefni núna er að skoða stjórn stofnunarinnar. Það var rætt talsvert í gær með hvaða hætti hún ætti að vera, aðkoma þingmanna o.s.frv. og var vísað til þess að gerðar hefðu verið breytingar þar á árið 2008 og aftur árið 2012, að gerðar hafi verið ýmsar skýrslur um þennan þátt málsins. Mér þætti það vera góður áfangi núna á þessu ári að taka stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til skoðunar en leggja á ís hinn meginþáttinn, að færa starfsemina inn í ráðuneytið. Ég held að það gæti verið til farsældar fallið.