145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:56]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín starfsreynsla liggur ekki á sviði þróunarsamvinnu þannig að ég hef kannski ekki dýpstu þekkingu á því sviði en við ræðum um stofnun sem sinnir starfinu sem snýr að þróunarsamvinnu og ég vil geta treyst því að unnið sé faglega vegna þess að ég er borgari í samfélagi sem er hluti af heimi og við berum þar með öll ábyrgð á þróunarsamvinnu.

Mín reynsla er samt talsvert mikil þegar kemur að stjórnsýslu, stefnumótun og samfélagsúrbótum á sviði mannréttinda og jafnréttis og sú reynsla kallar fram fullt af spurningum varðandi það að ætla að færa stofnun þróunarsamvinnu til ráðuneytisins. Mér finnst dálítið áhugavert og skrýtið stundum að okkur finnst rosalega erfitt að breyta mörgu sem er í alveg fullkomnu ólagi. Okkur finnst mjög erfitt að stíga skref til að breyta einhverju sem er löngu búið að sýna að er úrelt, þarf að laga og breyta. En svo þegar eitthvað er bara í ágætu lagi, þegar eitthvað reynist vel eins og Þróunarsamvinnustofnun þá viljum við endilega gera breytingar á því og það finnst mér athyglisvert. Og mér finnst skrýtið að stjórnvöld eyði tíma sínum í slíka vitleysu.

Hv. þm. Róbert Marshall nefndi áðan að sumu leyti sambærilegt verkefni, notendastýrða persónulega aðstoð, og lýsti því hvernig það hefði haft slæm áhrif að færa það inn í ráðuneytið. Í mínum huga var það bara ákveðin stefnuyfirlýsing, það var stefnuyfirlýsing félags- og húsnæðismálaráðherra um að hún hefði ekki áhuga á því verkefni. Því langar mig að spyrja hv. þm. Kristján Möller hvort það geti bara ekki verið ástæðan í þessu máli, (Forseti hringir.) hvort hér sé verið að gefa stefnuyfirlýsingu um að við ætlum að breyta stefnu okkar og haga málum kannski með verri hætti en við höfum gert.