145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:00]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem stuðar mig kannski mest við þetta allt saman er að rannsóknir og reynsla okkar sýnir að það er mjög mikilvægt að gera greinarmun á þeim sem setja lög, þeim sem framkvæma stefnu og þeim sem hafa eftirlit. Ég get ekki séð með svo viðkvæman málaflokk eins og þróunarsamvinnu sem snýst fyrst og fremst um það að vernda mannréttindi og umhverfi o.s.frv. að það geti verið gott að hrúga öllu valdinu eða valdníðslunni allri saman á einn stað í ráðuneyti þar sem allir ætla svo að hafa eftirlit með sjálfum sér. Ég get bara ekki séð að það verði til góðs og það er sérstaklega óheppilegt núna þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum eins og að taka á móti flóttafólki og sinna því vel að við sitjum hérna og séum að röfla um þetta þegar við eigum bara að fara að vinna vinnuna okkar.

Getum við kannski farið að sinna þróunarsamvinnunni í staðinn fyrir að sitja hérna og velta því fyrir okkur hvort við eigum að taka einhverja stofnun sem sinnir hlutverki sínu vel og planta henni í eitthvert ráðuneyti? Ég held að við höfum brýnni verkefni en það.