145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn á ný vil ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið í þessa umræðu með andsvari sínu. Hitti hv. þingmaður ekki akkúrat naglann á höfuðið í síðustu orðum sínum? Getum við ekki farið að sinna þróunarsamvinnunni og gera það sem okkur ber að gera í staðinn fyrir að vera að ræða þetta ólánsfrumvarp ráðherrans sem ræðst að þessari stofnun okkar sem við erum stolt af og eins og ég sagði hér áðan hefur fengið margar viðurkenningar fyrir faglegt og gott starf?

Hv. þingmaður notaði líka orð sem ég get vel tekið undir: Af hverju eigum við að hrúga öllu valdi inn í ráðuneyti þeirra sem setja lög, þeirra sem hafa eftirlitið og framkvæmdina o.s.frv.? Við þurfum að hafa áfram þá armslengd sem hefur verið hér á milli, Þróunarsamvinnustofnun hefur staðið sig vel og það á að láta þá stofnun í friði.