145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Aftur hefst hér umræða um frumvarp til laga um Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þetta mál var flutt hér í vor af ráðherra og hann dró það til baka þá en hefur tekið þá ákvörðun að gera þetta að forgangsmáli sínu og spurning hvort engin mál frá því ráðuneyti séu brýnni en þetta mál sem er mjög umdeilt alls staðar.

Það hefur komið fram veigamikil gagnrýni á þetta mál allt, að fella Þróunarsamvinnustofnun Íslands undir utanríkisráðuneytið. Það stendur upp úr hjá öllum sem hér hafa talað í þessari umræðu hversu góð og vönduð þessi stofnun er, fyrirmyndarstofnun eins og kemur í raun fram í frumvarpinu sjálfu sem má lesa hér á bls. 8, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum. Í því samhengi ber að benda á að aðferðafræði ÞSSÍ og hlutverk stofnunarinnar í framkvæmd þróunarverkefna hefur tekið þó nokkrum breytingum á liðnum árum. Þannig hefur framkvæmdin í auknum mæli verið að færast yfir á innlenda aðila í samstarfslöndum Íslands, svo sem héraðsstjórnir. Er þessi breyting í takt við alþjóðlegar yfirlýsingar um árangur þróunarsamvinnu þar sem lögð er áhersla á eignarhald heimamanna í þróunaríhlutunum.“

Miðað við svona mat ættu menn að slá skjaldborg um þessa stofnun og verja hana og leyfa henni að halda áfram að vaxa og dafna í þá átt sem hún hefur þróast, en svo er því miður ekki. Utanríkisráðherra telur að það sé brýnasta verkefni hans að koma frumvarpinu í gegnum þingið og það hefur byrjað þannig að hér hefur þurft að hafa kvöldfund út af þessu máli og dagskráin brotin upp eins og í dag þegar hæstv. ráðherra þurfti að bregða sér af bæ en við hin þurftum að vera á staðnum og bíða þar til umræðan héldi áfram í stað þess að fresta bara málinu og taka það ekki aftur á dagskrá fyrr en á morgun eða þegar tækifæri gefst til.

Ég velti vöngum yfir því hvort sá mikli niðurskurður sem varð hjá utanríkisráðuneytinu árið 2013 hafi eitthvað með þetta að gera, að það vanti fjármagn inn í ráðuneytið og þess vegna horfi hæstv. ráðherra til þeirrar samlegðar sem verður þegar fjármagnið sem fylgir Þróunarsamvinnustofnun flyst inn í ráðuneytið því mér finnst ekki vera neinn rökstuðningur að neinu gagni, hvorki í frumvarpinu né í máli ráðherra, fyrir því að þröngva þessari stofnun inn í utanríkisráðuneytið.

Við þekkjum líka umræðuna sem hefur verið á Alþingi varðandi niðurskurð til þróunaraðstoðar. Það er okkur ekki til sóma að í þessum þingsal sé talað þannig að við séum að greiða of mikið í þróunaraðstoð en sem betur fer eru ekki margir sem tala þannig. En ef við værum þjóð á meðal þjóða eins og við ættum að vera þá mundum við greiða um 0,7% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Það fara um 4 milljarðar í þennan málaflokk í dag. Það kom fram í umræðunni að ráðherra lagði til í vor að um 0,23% af vergri landsframleiðslu færu í þennan málaflokk en í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að framlagið hefur verið lækkað um 500 millj. kr. og er í 0,21%.

Þess má geta að síðasta ríkisstjórn spýtti myndarlega í lófana og lét aukalega 1 milljarð í þennan málaflokk sem hefði átt að halda áfram að vaxa og framlögin hefðu verið um 4,7 milljarðar ef þeirri áætlun hefði verið haldið til haga, en svo er ekki, því miður.

Það hefur komið fram hjá svokallaðri DAC-nefnd sem er á vegum OECD að stærsti veikleikinn varðandi starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar sé að eftirlit skorti með starfseminni og ég held að rétt sé að taka undir það. Við þurfum auðvitað að vanda okkur vel og hafa eftirlit með starfseminni sem slíkri svo fjármunirnir nýtist sem best, en þá spyr maður sig: Er endilega gott að hafa starfsemi sem þessa undir ráðuneytinu, framkvæmdavaldinu, og stefnumótun, framkvæmd og eftirlit sé þá á sömu hendi? Ég tel það ekki vera gott og ekki í takt við nútímastjórnsýsluhætti. Það má benda á þá gagnrýni sem hefur komið fram hjá Ríkisendurskoðun. Hún hefur varað við því fyrirkomulagi að einn og sami aðilinn móti stefnu, framkvæmi hana og hafi eftirlit með henni. Eðlilegra sé að ráðuneytið móti stefnu samkvæmt leiðsögn Alþingis og Þróunarsamvinnustofnun Íslands framkvæmi hana og eftirlit sé í höndum ráðuneytis sem væri þá eldveggur á milli. Ríkisendurskoðun segir enn fremur að hefðbundið starf ráðuneytis henti ekki endilega í rekstri á þessum málaflokki. Svokölluð friðargæsla er gott dæmi, kemur fram í athugasemdum Ríkisendurskoðunar — ógagnsær rekstur stýrt án yfirlýstra markmiða, hefur aldrei verið árangursmetinn og sniðgengur góða stjórnsýsluhætti, t.d. er ráðið í störf án auglýsinga. Engin opinber gögn gera grein fyrir starfseminni og engar úttektir sýna árangur. Þarna er verið að tala um svokallaða friðargæslu sem heyrir undir utanríkisráðuneytið.

Þetta frumvarp og niðurstaða hæstv. ráðherra byggist fyrst og fremst á skýrslu sem gerð var af sviðsstjóra Rauða krossins eins og komið hefur fram hér. En það hafa komið fram fleiri skýrslur. Ég vitna í skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um málefni Þróunarsamvinnustofnunar sem kom út 2008 og rök hennar fyrir því að ekki ætti að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður eða færa inn í ráðuneytið. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Skortur á samræmingu málsmeðferðar og samhæfingu við framkvæmd stefnu í málum, er varða tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, hefur löngum verið talið vandamál. Til að leysa þann vanda hefur komið fram sú tillaga að fella starfsemi ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið. Þar með yrði marghliða og tvíhliða þróunarsamvinna Íslands sameinuð og á einni hendi innan ráðuneytisins. Hér í þessum tillögum til ráðherra er lagst gegn þessari leið. Það er gert í ljósi þess að ýmis almenn rekstrar- og stjórnunarverkefni, sem fylgja framkvæmd tvíhliða samvinnu, samrýmast illa hlutverki og vinnuumhverfi ráðuneyta, en einkum þó vegna þeirra áhrifa sem slík sameining getur haft á stefnumótunarvinnu í málaflokknum.“

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, höfundur skýrslunnar, kom fyrir utanríkismálanefnd á vormánuðum 2015. Hún hafnar þeim rökum sem færð hafa verið fram um að hér sé unnið samkvæmt tillögum sem unnar voru fyrir fyrri ríkisstjórn undir yfirskriftinni Samhent stjórnsýsla. Hún bendir á að þar sé fyrst og fremst lagt til að efla lítil ráðuneyti með því að sameina ráðuneyti en það sé ekki sama markmið og að sameina ráðuneyti og fagstofnanir eins og er verið að tala um í þessu tilfelli. Þá sé utanríkisráðuneytið mjög ólíkt öðrum ráðuneytum hvað varðar verkefni og vinnulag og Þróunarsamvinnustofnun Íslands sé eina fagstofnun ráðuneytisins og mjög mikilvæg fyrir sjálfsmynd málaflokksins. Og með því að færa hana inn í ráðuneyti er hættan sú að mikilvægi málaflokksins dvíni mjög. Það er auðvitað það sem við sem höfum talað gegn þessu erum hrædd um, að vægi málaflokksins minnki þegar það er komið undir framkvæmdarvaldið. Sigurbjörg bendir enn fremur á að staðið hafi yfir fagleg umræða á alþjóðlegum vettvangi um áraraðir um samkrull viðskipta og þróunar en DAC-nefndin gjaldi mikinn varhuga við því að blanda saman viðskiptum og viðskiptahagsmunum og þróun. Að lokum bendir hún á að samstarfsnefnd um þróunarsamvinnu ætti að vera nægjanlegur vettvangur fyrir aðkomu frjálsra félagasamtaka að stefnumótun um þróunarsamvinnu, þar ættu embættismenn ráðuneytisins að hlusta og bera til baka sjónarmið þannig að þau skili sér í stefnumótunina.

Mér finnst hafa komið fram í öllum þeim málflutningi sem hér hefur verið frá því að þessi umræða hófst aftur í upphafi þings að það eigi alls ekki að leggja þessa góðu og merku stofnun niður, stofnun sem nota bene Ólafur heitinn Jóhannsson var upphafsmaður að eins og kom fram í dag í ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Þó að það hafi verið harkalegur niðurskurður í utanríkisráðuneytinu megi ekki sveigja þessa einu fagstofnun sem er undir ráðuneytinu inn í það vegna einhverra samlegðaráhrifa í fjármagni. Það er of mikið undir í þeim efnum. Þróunarsamvinnustofnun hefur margsinnis sannað sig í óháðum úttektum og það hefur líka komið fram í umræðunni að flaggskipið þar er Jarðhitaskólinn sem hefur skilað miklum árangri. Það er mjög ófaglegt að stefnumótun og framkvæmd og eftirlit sé allt á sömu hendi. Það er ekki góð stjórnsýsla.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur fengið fyrsta flokks einkunn, bæði fyrir frammistöðu sína, árangur og að fara vel með fjármuni. Sem sagt, hún er fyrirmyndarstofnun innan íslenska stjórnkerfisins og ætti að fá að njóta góðs af því og halda áfram á þeirri braut sem hún er á. Það er ekki gert ráð fyrir að ríkið spari neitt með því að færa stofnunina undir utanríkisráðuneytið en hins vegar hefur það komið fram að núverandi forstöðumaður verði ekki endurráðinn þó að talað sé um í frumvarpinu að starfsmenn verði endurráðnir á sömu kjörum. Ég tel það auðvitað vera mjög einkennilegt að lýsa því svona fyrir fram að ekki sé hægt að nýta áfram starfskrafta þess manns sem hefur leitt stofnunina til góðra verka. Það er eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu og ekki eðlilegt að það sé þannig.

Ég tel rétt að við bíðum eftir þeirri skýrslu sem (Forseti hringir.) DAC er að vinna að varðandi jafningjarýni og við setjum þetta mál á ís og förum ekki fram með því offorsi sem hæstv. ráðherra virðist ætla að gera.