145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líkt og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir þá furða ég mig svolítið á tilganginum með frumvarpinu. Ef maður skoðar innsend erindi frá því málið var lagt fram á síðasta þingi þá kemur mjög skýrt fram, sérstaklega í umsögn stofnunarinnar sjálfrar, hversu tilgangslaust þetta virðist vera. Stofnunin vinnur ekki í trássi við fjárlög, hún skilar sínu, hún virðist vera vel metin og aldrei hefur maður heyrt að eitthvert ægilegt vandamál sé í sambandi við þá stofnun. Þess vegna veltir maður fyrir sér tilganginum með þessu.

Þá læðist að mér sá grunur að eina markmiðið sé að veita það sem hér er kallað lýðræðislegt aðhald, sem eru í raun og veru pólitísk afskipti af því hvernig málum er háttað. Það er eitthvað sem ég óttast. Þó að ég kunni ágætlega að meta hæstv. utanríkisráðherra sem persónu, mér finnst ágætt að tala við hæstv. utanríkisráðherra, þá er ég enn mjög brenndur eftir meðferð ríkisstjórnarinnar, og sér í lagi hæstv. ráðherra, gagnvart valdi. Þá tek ég sem helsta dæmið hvernig farið var með ESB-málið, það mátti ekki spyrja þjóðina þannig að þingið var spurt, það klikkaði og þá var þingið ekki einu sinni spurt heldur bara vaðið áfram með þær tilætlanir eins og við þekkjum.

Ég er því alltaf afskaplega hræddur við að efla vald þessarar tilteknu ríkisstjórnar, og reyndar ríkisstjórna og ráðuneyta almennt gagnvart undirstofnunum og hvað þá þinginu. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður kemst næst markmiðinu með frumvarpinu. Er sparnaður af þessu eða er þetta bara valdatilfærsla?