145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að sjá að það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra telur að sé óalandi og óferjandi í þeim mæli að hann telur þörf á því að leggja niður sjálfan kjarnann í málaflokknum, þ.e. Þróunarsamvinnustofnun, er fyrirkomulag sem hefur gengið vel annars staðar. Það hefur gengið svo vel að við höfum nýlegt dæmi um að land sem er umsvifamikið á sviði þróunarsamvinnu hefur bókstaflega gersnúið við sínu kerfi og tekið upp sama fyrirkomulag og Ísland, þ.e. Ítalía. En Ísland er þar að auki í hópi hvað þetta varðar með langflestum ríkjum sem hafa fengið aðild að hinu svokallaða DAC-hópi OECD-ríkjanna. Það er fróðlegt fyrir hv. þingmann að hlusta á hvaða ríki það eru sem Ísland situr í flokki með hvað þetta varðar. Það er Austurríki, Belgía, Tékkland, Frakkland, Þýskaland, Japan, Lúxemborg, Suður-Kórea, Spánn, Svíþjóð og Bandaríkin. Núna síðast bættist Ítalía við í þennan hóp. Þessi ríki öll telja að þetta fyrirkomulag henti þeim vel.

Hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að þetta henti Íslandi afar illa. Það sem er náttúrlega sorglegast og kannski spíssfyndugt í þessari umræðu er sú staðreynd að ráðherrann hefur ekki getað fært eina einustu röksemd fyrir þessari afstöðu sinni.

Hvað skyldi nú íslenska akademían segja um þetta? Við höfum nefnilega töluvert atgervi innan Háskóla Íslands sem hefur þekkingu og reynslu á þessu sviði. Félagsvísindastofnun er þar fremst í flokki. Hvað sagði hún? Hún taldi það óráð að leggja af stofnunina. En hvað vildi hún? Hvert var hennar (Forseti hringir.) úrræði eftir að hún hafði farið yfir málin? Það var að útvíkka stofnunina og láta hana fá í hendur frekari verkefni, (Forseti hringir.) öll verkefnin sem utanríkisráðuneytið (Forseti hringir.) hefur núna á þessu sviði. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa ráðleggingu eftir að hafa hlustað á umræðurnar?