145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get ekki annað en komið hérna og tekið undir orð hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur. Það vill svo til að hún er yngsti þingmaðurinn sem situr hér sem varanlegur þingmaður, hefur nýlega tekið fast sæti á þinginu. Eftir nokkurra daga veru í því hlutverki er það hennar niðurstaða að framkoma hæstv. ráðherra, sem núna hímir í afherbergi, gagnvart umræðunni sé hneyksli. Ég get ekki annað en tekið undir það. Það er dónaskapur af hæstv. ráðherra að vera ekki viðstaddur umræðuna þegar hún fer fram. Þingið hefur sýnt honum mikla lipurð með því að fallast á að fresta umræðunni og hefja hana aftur í kvöld í staðinn fyrir að byrja bara á morgun til þess að hann geti sinnt öðrum skyldum. Þá er það lágmark að hæstv. ráðherra virði það með því að a.m.k. leggja í þann háska að sitja örfáar mínútur undir ræðunum en ekki híma (Forseti hringir.) einhvers staðar annars staðar í húsinu.