145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[10:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Núna á þessu ári 2015 er uppi fordæmalaust neyðarástand og það er neyðarástand í gangi hjá okkar næstu nágrönnum. Við getum þá ekki farið í einhverja hefðbundna yfirferð yfir málið. Við þurfum að gera okkar hlut núna og við þurfum að átta okkur á því að það ríkir neyðarástand og þá grípum við til annarra meðala og meðhöndlum aðstæðurnar sem slíkar.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að taka um það ákvörðun á morgun að taka hér á móti hópi fólks. Við í Samfylkingunni höfum lagt til að tekið verði á móti 500 manns. Ég horfi yfir hverfið mitt og götuna mína og það er svona álíka eins og hópur af fólki sem býr í blokkarlengjunni sem ég bý í, þetta er ekki meira en það. Þetta er ekki stór hópur og við eigum vel að geta tekið á móti 500 manna hópi nú þegar. Við skulum gera okkar hlut í þessu fordæmalausa ástandi (Forseti hringir.) í stað þess að halda að við getum farið í gegnum einhverja venjulega prósessa eins og ekkert hafi í skorist og (Forseti hringir.) haldið áfram að horfa á einhverja kvótaflóttamenn eins og við gerðum í fyrra, hittiðfyrra og þar áður. Þetta er fordæmalaust ástand og það þarf að grípa inn í það (Forseti hringir.) og við eigum að vera ábyrgir þátttakendur í því.