145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

stefna í málefnum innflytjenda og flóttamanna.

[10:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um ákveðið grundvallaratriði, sem snýr raunar í þessu tilviki að tveimur ráðuneytum. Það er alltaf svolítið vandasamt þegar við erum að tala um þessi mál af því að undir innanríkisráðuneyti heyrir það sem snýr landamærum og þar til það er komið í gegn og síðan tekur félagsmálaráðherra við með flóttamannamálið, þannig að sú verkaskipting sé skýr.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni að þeir atburðir sem nú eru í heiminum séu náttúrlega af allt annarri stærðargráðu en við höfum séð frá síðari heimsstyrjöld og ég held að við þurfum ekkert að deila um það, við vitum það. Við vitum líka að þetta er ekki nokkuð sem við munum leysa núna á næstu mánuðum, það er líka gott að hafa í huga. Ég held að við séum þvert á móti að horfa til nokkurra ára bils þar sem heimsmyndin, að öllum þeim breytingum loknum, gæti orðið töluvert öðruvísi, a.m.k. hvað varðar Evrópu ef áfram heldur sem horfir. Ég held að ágætt sé að reyna að setja hlutina í dálítið stærra samhengi þegar við lítum á þetta mál. Það er í þeim kringumstæðum sem ríki Evrópu núna, og Íslendingar eru svo sannarlega hluti af heiminum, eiga við ákveðið verkefni, við skulum frekar orða það þannig, sem eins og hv. þingmaður impraði á, gengur kannski ekki alveg inn í þetta hefðbundna. Þess vegna er það mín skoðun að mjög mikilvægt sé að við lítum til flóttamanna á þeim svæðum þar sem þeir eru, þeirra fordæmalausu aðstæðna sem þeir búa við á heimasvæðum sínum, og menn geri það sem þeir geti til að hjálpa líka þar. Um leið og við erum að tala um það að inn í Evrópu leiti menn, og við fáum að sjálfsögðu fólk hingað til okkar og við eigum við það í innanríkisráðuneytinu þegar við lítum á hælisleitendur og höfum verið að fá meira fé og setja meiri kraft í það, þá megum við ekki gleyma því að vandinn steðjar að þeim (Forseti hringir.) heima fyrir og þar finnst mér að við þurfum að gera miklu, miklu betur.

En það er erfitt að svara svona spurningu á tveimur mínútum.