145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

stefna í málefnum innflytjenda og flóttamanna.

[10:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Sú ráðherranefnd sem nú er að störfum og hittist á morgun er auðvitað sett í þeim tilgangi að draga saman ólík sjónarmið þeirra sem um þetta mál véla, þ.e. ólíka aðila og ólíka aðkomu manna að málinu. Undir þeim hatti eru að sjálfsögðu líka þróunarmál, við skulum orða það svo, á þeim svæðum þar sem fólk er, eins og ég nefndi í fyrra svari mínu, það er líka undir þar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við getum lagt heilmikið af mörkum þar. Við skulum ekki gleyma því sem við höfum þegar lagt af mörkum, sem kom fram í svari hæstv. félagsmálaráðherra og þingmenn þekkja auðvitað mjög vel frá fyrri tíð. Við leggjum mjög mikið af mörkum þegar litið er til Landhelgisgæslunnar úti á Miðjarðarhafi og ég tel að við getum gert miklu meira þegar við lítum á bæði flóttamannabúðir og aðra hluti á heimasvæðum.

Ég vil segja það sem mína skoðun að við þurfum samt sem áður að hafa ákveðin kerfi í lagi. Það er mjög erfitt að landamæri Evrópu séu hreinlega brostin (Forseti hringir.) og það er nokkuð sem við verðum að bregðast við, það er eitt af þeim viðfangsefnum sem við þurfum að eiga við í tengslum við þetta flókna mál.