145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

Akureyrarakademían.

[11:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að gera málefni Akureyrarakademíunnar að umtalsefni í dag og beina fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vegna hennar. Í kjölfar stofnunar Akureyrarakademíunnar árið 2014 var gengið frá samningi síðastliðið vor milli menntamálaráðuneytis og Akureyrarakademíunnar sem gaf fyrirheit um ákveðin fjárframlög þó að ekki standi neinar tölur í samningnum, enda er það samkvæmt leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar um að slíkt sé ekki gert.

Til að segja frá því þá var Akureyrarakademían með svipuðu sniði og Reykjavíkurakademían. Hún gegnir miklu og góðu hlutverki í fræðasamfélaginu á Norðurlandi og býr yfir töluverðum mannauði. Óskir standa til þess að efla og styrkja sjálfstæðar rannsóknir á landsbyggðinni og miðlun þeirra um land allt og það fram kemur í samningi milli ráðuneytisins og Akureyrarakademíunnar. Þess utan hefur Akureyrarakademían undirritað samstarfssamning við Háskólann á Akureyri þar sem hún veitir háskólanemum, m.a. þeim sem stunda fjarnám við aðrar háskólastofnanir en Háskólann á Akureyri, skrifstofuaðstöðu og vettvang til samveru og samstarfs, en sá vettvangur er ekki í boði annars staðar á Akureyri.

Gert er ráð fyrir 2,3 millj. kr. framlagi til akademíunnar og við undirbúning fjárlaga var látið að því liggja að fjárveitingin yrði í kringum 8 millj. kr. en þetta er niðurstaðan. Það eru rétt um 200 þús. kr. sem félagið fær greitt á mánuði. Það gengur ekki. Svo á að greiða þetta út mánaðarlega. Það getur enginn gert nokkurn skapaðan hlut fyrir slíka fjárhæð (Forseti hringir.) á mánuði. Því spyr ég: Hyggst ráðherra leggja til (Forseti hringir.) breytingar og standa við það sem mér skilst að ráðuneytið hafi sjálft lagt upp með við undirritun þessa samnings?