145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

Akureyrarakademían.

[11:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við í fjárlaganefnd höfum var gengið út frá því við gerð samningsins við menntamálaráðuneytið að Akureyrarakademían fengi til ráðstöfunar í kringum 8 millj. kr. næstu tvö ár, enda hlýtur hæstv. ráðherra að átta sig á því að stofnunin hefur ekki haft efni á því að vera með starfsmann. Það er erfitt að sækja um aðra styrki þegar maður er með fólk í sjálfboðavinnu.

Reykjavíkurakademían fær tæplega 19 millj. kr. fram til ársins 2019 á meðan Akureyrarakademían hefur fengið á bilinu 500 þús. kr. til 2,5 millj. kr. styrk. Því spyr ég: Er ekki óeðlilegt að önnur stofnunin fái viðvarandi hækkun en sú sem er í sambærilegu starfi fyrir norðan fái hana ekki? Er rangt að gengið hafi verið út frá öðrum fjárhæðum en niðurstaðan er hér? Það er ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum í fjárlaganefnd.