145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu átaki sem nú stendur yfir. Fyrst er nú það til að taka að það er mikilvægt að hafa í huga að þau próf sem gjarnan eru til umræðu þegar rætt er um læsi, hin alþjóðlegu PISA-próf, eru alls ekki góður mælikvarði á skólastarf. Þau mæla nefnilega ekki hluti sem skipta svo miklu máli, eins og sköpunargáfu, lýðræðisvitund, félagsgáfu, félagslæsi, náttúrulæsi, margs konar, ekki bara eina tegund af því, þrautseigju og aðra slíka þætti sem skipta svo miklu máli þegar við erum að mennta börnin okkar. En þau mæla ákveðna þætti. Þau mæla meðal annars læsi í hinum víða skilningi að geta lesið sér til gagns þannig að viðkomandi geti lesið og skilið það sem hann les og nýtt sér það, svarað upp úr texta einföldum spurningum. Það er alveg klárt mál, virðulegi forseti, að þessi geta skiptir miklu máli þegar komið er til náms á framhaldsskólastigi.

Fyrir þjóð eins og okkar, sem hefur þá sjálfsmynd að vera hin lesandi þjóð, þá er það verulegt áhyggjuefni þegar mælingar sýna að okkur hefur hrakað verulega frá árinu 2000 í þessum mælingum sem eru samanburðarhæfar og að staðan sé núna sú að 30% drengjanna okkar eigi mjög erfitt með að lesa sér til gagns og 12% stúlknanna. Þetta kallast á við þá staðreynd að þegar við skoðum krakkana, þegar þeir koma upp úr grunnskólum og eru að skrá sig inn í framhaldsskóla, þá fer langleiðina í 30%, 27–28%, af þeim hóp í framhaldsskóla, sé ekki fær um að hefja nám í framhaldsskóla; fyrir svokallað almennt nám, sem var kallað núlláfangar í gamla daga þegar ég var á framhaldsskólastigi. Þetta er gríðarlega stór hópur.

Afdrif þessa hóps, virðulegi forseti, eru þau að sex árum eftir að hann hefur nám eru 70% hópsins ekki búin að ljúka námi á framhaldsskólastigi. Við skuldum öllum þessum krökkum það að færa þeim í hendur tæki og tól til þess að geta lesið sér til gagns, sem er grundvöllur alls annars náms.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þeirri nálgun sem hv. þingmaður hafði hér og útlistun hv. þingmanns á því sem liggur til grundvallar þessu átaki. Þetta er eins rangt og það getur orðið. Hv. þingmaður gerði vel í því að mæta á einn af þeim fjölmörgu viðburðum þar sem við höfum verið að skrifa undir þessi samkomulög með sveitarstjórnarfólkinu, með kennurum, með foreldrum, vegna þess að Heimili og skóli koma að þessu átaki með okkur, og heyra hvað fólkið segir, heyra hvað skólafólkið segir, heyra hvað kennararnir segja, heyra hvað foreldrarnir segja, heyra hvað sveitarstjórnarfólkið segir. Og þá, virðulegi forseti, er það önnur mynd en sú sem var dregin hér upp áðan hjá hv. þingmanni.

Hvað það varðar að nú eigi að fara að miðstýra öllu hér þá er það herfilega röng fullyrðing. Virðulegi forseti, áfram verður það eins og verið hefur að það er skólafólkið, kennararnir og skólastjórnendur, sem tekur ákvörðun um það hvernig læsi er kennt. Að sjálfsögðu er það þannig vegna þess að þarna er um að ræða fagmennina sem eiga að taka ákvarðanirnar og þekkja best til sinna nemenda og þeirra aðferða sem duga. Það er engin ein aðferð sem dugar, það liggur fyrir.

Má ég benda á að nú þegar eru mjög víðtæk skimunarpróf í gangi í kerfinu okkar, alveg niður í leikskóla, vegna þess að við vitum það að því fyrr sem við greinum vandann, því fyrr sem við tökum eftir því að barnið á erfitt með að læra að lesa, því meiri möguleikar eru á því að snúa þeirri þróun við og hjálpa barninu þannig að það geti lesið sér til gagns og eigi þá möguleika á öllu því námi sem í boði er.

Þess vegna er það svo herfilega rangt, virðulegi forseti, og lýsir miklum misskilningi, að halda því fram að hér sé einhvers konar miðstýringarárátta á ferðinni. Það væri miðstýringarárátta ef menn segðu að það ætti bara að vera einhver ein aðferð við það að læra að lesa. Það væri herfilegt rugl að leggja upp með slíkt, en þannig er það ekki.

Ég ætla að segja þetta við þingheim: Sú staðreynd að 30% drengjanna geta núna ekki lesið sér til gagns og 12% stúlknanna er ekkert annað en ávísun á stéttskiptingu í okkar samfélagi. Menntun er aflvaki og drifkraftur allra efnahagslegra framfara í nútímasamfélögum og um leið líka leið manna til gjöfuls og góðs lífs. Virðulegi forseti, með því að útskrifa krakkana úr grunnskóla án þess að búa yfir þessari sérstöku færni þá erum við að gera þeim allt að því ómanneskjulega erfitt fyrir, eins og tölur benda til, að nýta sér námsframboð á framhaldsskólastiginu og það sem við tekur þar á eftir. Það er stéttskipting, hörmuleg og æpandi stéttskipting, stéttskipting sem við eigum ekki að sætta okkur við.

Við skuldum okkur sjálfum og börnunum okkar að við tökum til hendinni. Þessi ríkisstjórn leggur upp með það að settar verði sérstaklega 150 milljónir á ári í þetta átak næstu fimm árin. Það dregur ekki úr öllu hinu mikilvæga (Forseti hringir.) starfinu sem unnið er í skólunum og samhengi þess að við undirbúum krakkana okkar (Forseti hringir.) undir það að verða virkir þátttakendur í því þjóðfélagi sem þeirra bíður þegar skólagöngunni lýkur.