145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[11:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er afar áhugaverð umræða. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni fyrir að hefja máls á þessu, fangelsismálum. Mér finnst af því sem ég hef heyrt hér í dag að sóknarfæri okkar og tækifæri á þessu sviði séu fjölmörg. Við getum svo sannarlega gert betur, en hlutirnir kosta peninga. Mér fannst líka gaman að heyra hv. þm. Heiðu Kristínu tengja þessi verkefni öll við til dæmis læsi. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmann að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)

Afsakið, hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur, fyrirgefðu — tengja þetta við læsi vegna þess að það er staðreynd að margir fangar, fullorðnir menn, koma inn í fangelsi landsins ólæsir. Það hefur verið gert mikið átak varðandi menntun fanga síðustu ár sem hefur skilað miklum árangri og dregið mikið úr endurkomum. Þarna eru því mikil tækifæri til að huga að þessu. Samkvæmt upplýsingum mínum er hátt hlutfall fanga með ýmiss konar greiningar, ADHD, lesblindu og annað, þannig að við erum örugglega öll sammála um að það er skynsamleg ráðstöfun fjármuna að betra fólk í fangelsum.

Hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, fór yfir áðan, þetta voru fimm atriði, um tilgang refsinga, og neðst á listanum var betrun. Ég held að betrun ætti að vera í fyrsta sæti vegna þess að, eins og ég segi, það er skynsamleg ráðstöfun fjármuna fyrst og fremst.

Ég sé að ég á lítinn tíma eftir, en mig langar að koma því á framfæri hér í dag að þegar við tölum um fangelsismál kemur oft sú gagnrýni upp að það eigi ekki að vera að dekra við fanga, fangelsi eiga ekki að vera hótel, það á ekki að vera að gera þeim eitthvað gott. Það er enginn að tala um það, við erum að fara yfir þær staðreyndir sem máli skipta, að með því að betra fólk og gera það að gildum þegnum og leiða það af vegi glæpabrautarinnar þá erum við akkúrat að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir það að fólk brjóti af sér aftur og það hlýtur að vera tilgangurinn með þessu öllu saman.