145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mér sérstakt fagnaðarefni hvernig hæstv. innanríkisráðherra tekur þessari umræðu og tekur á málaflokknum reyndar almennt.

Ég held að það sé hárrétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að fjárveitingavaldið þurfi að taka þennan málaflokk alvarlegar vegna þess að alls staðar þar sem maður skoðar þessi mál rekst maður á það að fjárveitingar eru af skornum skammti, niðurskurðarkröfur eru eða aðhaldskröfur eins og þær eru kallaðar, þegar jafnvel öryggi fanga og fangavarða er ógnað, hvað þá þegar kemur að úrbótum, svo sem gagnvart geðheilbrigði o.fl.

Það er ýmislegt fleira sem hægt er að ræða í þessu sambandi, til dæmis skaðaminnkunarúrræði fyrir fíkla sem enda í fangelsi og eru bara í fráhvarfseinkennum, mjög hörðum og vondum fráhvarfseinkennum. Á sama tíma og þeir fara í fangelsið, jafnvel innan um aðra fanga, þá er ekki endilega betra að þeir séu í einangrun.

Ýmislegt í því sambandi, hvernig málum er háttað innan fangelsis og í kerfinu, er eitthvað sem við þurfum að ræða betur. En það sem ég sé hins vegar og upplifi hérna sem sameiginlegt hjá öllum ræðumönnum, og ég þakka hverjum og einum fyrir sínar ræður, er að enginn vill ala á refsigleðinni. Mér þykir vænt um að sjá að það sé sameiginlegt meðal allra sem ýmist hafa reynslu innan úr kerfinu, eins og hv. 5. þm. Reykv. n., Brynjar Níelsson, eða hafa kynnt sér þennan málaflokk. Enginn leggur sérstaka áherslu á refsingar sem sjálfstætt markmið, það gleður mig mjög.

Annað sem ég tek eftir er að allir sjá ástæðu til breytinga. Allir sjá að það er ýmislegt sem við þurfum að gera í málaflokknum. Síðast en ekki síst virðast allir sjá enn fremur að þetta kostar peninga og þarf að kosta peninga og að fjárveitingavaldið þarf að taka mið af þeirri staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég hugsa að ég þurfi að hlusta aftur á þessar umræður að þeim loknum til að taka inn allt sem hér hefur verið sagt, það voru margir góðir punktar. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og sér í lagi hæstv. innanríkisráðherra.