145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa gagnlegu umræðu. Hún er mjög mikilvæg fyrir mig núna í upphafi þingvetrar þar sem ætlunin er að taka til umræðu, eins og hér hefur komið fram, frumvarp um fullnustu refsinga.

Mig langar að bæta aðeins í það sem hér hefur verið sagt og beindist að mér. Ég held að óhætt sé að segja að þessi mál séu að fara í meiri fókus nú í vetur með þeim umræðum sem við munum hefja í þinginu í þessum málaflokki.

Við erum líka að líta til annarra þátta til viðbótar og ég nefndi ætlun okkar að skoða hegningarlögin. Það er þannig að samfélagsþjónusta er nú stjórnvaldsákvörðun og þá er hugmyndin sú að velta upp þeim möguleika í samstarfi við helstu sérfræðinga að það sé ekki æskilegt að þetta sé hluti af regluverki hegningarlaganna og sé þá ákvörðun dómara. Það má líka í því sambandi skoða rafrænt eftirlit og við mundum víkka þetta aðeins út og taka kannski frekari skref áfram í framhaldi af því frumvarpi sem við ræðum í vetur.

Einnig vil ég nefna í framhaldi af umræðu sem var hér á síðasta þingvetri um geðheilbrigðismál fanga að þar er líka loksins að fara af stað vinna, það tók dálítinn tíma að tilnefna í starfshóp milli velferðar- og innanríkisráðuneytis, um málefni þeirra fanga sem hafa verið afar viðkvæm. Við munum halda áfram með það. Ég tek það líka með mér úr þessari umræðu að við skoðum tengslin milli okkar og sveitarstjórnarstigsins, ef við lítum til málefna fanga þegar þeir koma aftur út í samfélagið, hvernig við tökum á móti þeim. Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir þessa miklu endurkomu fanga í fangelsin. Við viljum það auðvitað ekki, við viljum bæta þeirra hag, við viljum koma þeim aftur út í þjóðfélagið. Við viljum að þetta hafi þýðingu og við þurfum að stíga skref í þá átt í þeirri vinnu sem fram undan er.