145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:19]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata í nefndinni.

Upphaflega var þetta mál flutt á 143. þingi en í ljósi athugasemda sem bárust endurskoðaði forsætisnefnd frumvarpið og lagði síðan fram að nýju á 144. þingi. Þá hlaut það ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt.

Forsætisnefnd hefur farið yfir þær athugasemdir sem fram höfðu komið við frumvarpið á meðan það var til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta þingi og er sammála um að þær gefi ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu.

Ég fer nú í stuttu máli yfir helstu atriði frumvarpsins. Í I. kafla þess kemur fram sú meginbreyting að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi í stað þess að vera ráðinn af forsætisnefnd. Með þessu er sjálfstæði hans undirstrikað.

Í II. kafla frumvarpsins er gerð grein fyrir starfssviði ríkisendurskoðanda og til hvaða aðila endurskoðun hans og eftirlit tekur. Efnislega er ekki um breytingu að ræða frá gildandi lögum.

Helstu nýmæli III. kaflans lúta að því að í stað þess að vísa til góðrar endurskoðunarvenju við framkvæmd fjárhagsendurskoðunar er gert ráð fyrir því að um endurskoðunina verði litið til endurskoðunarstaðla og verklagsreglna sem gilda um endurskoðun hjá opinberum aðilum.

Ákvæði IV. kafla um meðferð mála hjá Ríkisendurskoðun eru nýmæli. Er þar kveðið á um þagnarskyldu og sérstakt hæfi ríkisendurskoðanda, starfsmanna Ríkisendurskoðunar og annarra sem starfa í þágu stofnunarinnar.

Jafnframt er kveðið á um rétt til umsagnar um drög að skýrslum og greinargerðum sem eiga að tryggja betur réttarstöðu þeirra sem falla undir eftirlit ríkisendurskoðanda.

Loks er fjallað um aðgang almennings að upplýsingum hjá Ríkisendurskoðun. Í frumvarpinu er lagt til að upplýsingaréttur almennings verði rýmkaður þegar um er að ræða gögn sem til verða í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila.

Um meðferð skýrslubeiðnar til ríkisendurskoðanda og upplýsingagjöf hans til Alþingis er fjallað í V. kafla frumvarpsins. Helstu nýmæli í V. kafla frumvarpsins eru þau að gert er ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi greini forsætisnefnd frá umfangi og beiðni og áætluðum skýrsluskilum.

Í VI. kafla eru ýmis ákvæði sem flest eru nýmæli. Meðal annars er lagt til að forsætisnefnd ákveði starfskjör ríkisendurskoðanda til samræmis við laun hæstaréttardómara. Heimilt verði að ráða staðgengil ríkisendurskoðanda í fjarveru hans.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi verði kosinn í fyrsta sinn samkvæmt 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins þegar núverandi ríkisendurskoðandi lætur af störfum, en núverandi ráðning gerir ráð fyrir því að hann starfi til 1. maí 2018.

Að öðru leyti vísa ég til framsöguræðu minnar á síðasta löggjafarþingi og legg svo til að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.