145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég verð að lýsa nokkurri furðu minni á því að þetta frumvarp skuli lagt fram í þeim búningi sem það er, því að það er að öllu leyti fullkomlega óbreytt frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta ári um þetta sama efni, sem var mál nr. 307 á síðasta þingi. Það sést náttúrlega best á því að í byrjun greinargerðarinnar segir: „Frumvarp þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi (307. mál) og fylgdi því þá svofelld greinargerð:“

Gæsalappir opnast og síðan í lok plaggsins á bls. 37 eftir athugasemdir um 23. gr. þá lokast gæsalappir. Þetta er því algjörlega óbreytt frá því frumvarpi sem flutt var á síðasta þingi. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi það, orðaði það svo, held ég, að hún hefði ekki nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir höndum. Ég er ekki hissa á því því að það nefndarálit var aldrei gefið út.

Hins vegar bárust stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nokkrar umsagnir. Það komu umsagnir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, endurskoðendaráði, Félagi löggiltra endurskoðenda, fjárlaganefnd og Ríkisendurskoðun sem sendu inn athugasemdir. Það liggur náttúrlega allt fyrir í gögnum nefndarinnar. Gerðar voru ýmsar athugasemdir og það undrar mig mjög að ekki hafi verið tekið tillit til neins af því. Síðan fóru fram umræður í nefndinni en nefndarálit var aldrei endanlega samþykkt.

Við 1. umr. í fyrra var einmitt gerð athugasemd við það sem hv. þingmaður nefndi hér við forseta þingsins í andsvörum áðan, þ.e. spurningin um hvers vegna þessi krafa er gerð um að forstöðumaður Ríkisendurskoðunar sé löggiltur endurskoðandi. Ég man ekki betur en fram hafi farið nákvæmlega sömu orðaskipti þá og fóru milli hv. þingmanns og hæstv. forseta áðan um að það hefði einfaldlega verið niðurstaða forsætisnefndar að það væri rétt að hafa þetta svona, þrátt fyrir að á þeim tíma hefði nefnd verið sett til að endurskoða lögin um Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda, sem starfaði hér á síðasta kjörtímabili, og sú nefnd hefði einmitt gert tillögu um að þetta ákvæði væri ekki inni.

Ég minnist þess að forseti þingsins sagði í fyrra að það hefði bara verið skoðun forsætisnefndar að rétt væri að hafa þetta svona. Svo kemur sama svarið núna: Það er skoðun forsætisnefndar að hafa þetta svona. Þrátt fyrir að í öllum þeim umsögnum sem komu inn um frumvarpið, og liggja fyrir í skjalasafni þingsins hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frá því í fyrra, eru gerðar athugasemdir einmitt við þetta ákvæði. Allir gera athugasemd við það.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skal ríkisendurskoðandi hafa löggildingu sem endurskoðandi sem þýðir að hann sé á endurskoðendaskrá ráðuneytisins. Í 21. gr. frumvarpsins segir hins vegar að lög um endurskoðendur, nr. 79/2008, taki ekki til ríkisendurskoðanda eða Ríkisendurskoðunar. Samkvæmt lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, hafa ekki aðrir en þeir sem fullnægja skilyrðum laganna heimild til að endurskoða og kalla sig endurskoðanda. Taki lög um endurskoðendur ekki til ríkisendurskoðanda þá þarf hann að leggja inn réttindi sín á meðan hann gegnir þessu embætti sem þýðir að hann geti þá ekki endurskoðað og áritað í samræmi við lög um endurskoðendur á þessu tímabili.“

Af hverju í ósköpunum er það þá skoðun forsætisnefndar að þetta eigi samt að vera svona? Það er mér algerlega óskiljanlegt. Það kemur fram í öllum umsögnunum að þetta gangi ekki upp.

Það kemur líka fram í umsögnum að Ríkisendurskoðun þarf ekki að standast sömu staðla og sömu reglur og endurskoðendur almennt. Þetta rímar bara ekki. Það rímar ekki finnst mér, virðulegi forseti, að við hér á Alþingi séum að setja lög um ríkisendurskoðanda sem ríma ekki við það sem aðrir endurskoðendur eiga að uppfylla. Ég tala nú ekki um þegar komin er hérna inn lagagrein um það að ríkisendurskoðanda sé heimilt að útvista og þar fram eftir götunum. Ég veit að mikill áhugi er hjá endurskoðendum að meira verði útvistað. Ég veit að Samtök verslunar og þjónustu, þau skiluðu reyndar ekki inn umsögn, en ég veit bara af viðtölum við fólk þaðan að þau hafa mikinn áhuga á því að ríkið útvisti meira.

Þá ætla ég að skjóta því inn, virðulegi forseti, að það á náttúrlega alls ekki að útvista nema það sé ódýrara. Það er auðvitað sjálfsagt að ríkið vinni sína vinnu, nema einhverjir aðrir geti gert það á ódýrari hátt. En þá verður náttúrlega líka að gera þá kröfu að Ríkisendurskoðun þurfi að uppfylla sömu skilyrði og stofurnar úti í bæ. Við hljótum að verða að gera það. Þetta er svo gamaldags. Það er svo gamaldags að vera með þetta ríkisapparat, ég er alls ekki á móti því, ég vil segja það, ég er alls ekki á móti því, en það er svo gamaldags að vera að gera einhverjar aðrar kröfur til ríkisins en annarra í þessu tilfelli. Það fer allur grundvöllur í burtu um það að hugsanlega sé hægt að vera með einhverja samkeppni á milli ríkis og einkaaðila ef ekki eru gerðar sömu kröfur. Þá virkar það oftast í hina áttina, menn vilja til dæmis kannski útvista meira í heilbrigðisþjónustu eða í menntakerfinu eða ég veit ekki hverju. Þá verður líka að sjá til þess að einkafyrirtækin uppfylli sömu kröfur og við gerum til ríkisstofnana. Það sama á við þegar við erum komin í þetta dæmi, þá verður ríkið líka að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til einkafyrirtækjanna. Annað gengur ekki. Að Ríkisendurskoðun vinni undir einhverjum öðrum stöðlum en aðrir endurskoðendur, það finnst mér hreinlega ekki ganga upp.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir spurði til dæmis um það að ríkisendurskoðanda væri ekki skylt að afhenda gögn, hvort heldur það væri þinginu, fjárlaganefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að stofnuninni Ríkisendurskoðun væri ekki skylt að afhenda gögn. Þetta var rætt í nefndinni. Ég get alveg staðfest að skiptar skoðanir voru í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um það. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað á Ríkisendurskoðun að vera skylt að afhenda þinginu eða nefndum þess gögn, við gætum samþykkt ályktun um það að afhenda ætti okkur eitthvað, að þá á Ríkisendurskoðun að vera það skylt.

Mér finnst það líka skipta mjög miklu máli, virðulegi forseti, að Ríkisendurskoðun sé sjálfstæð. En mér finnst stundum vera svolítill misskilningur í því hvað sjálfstæði þýðir í þessu efni. Sjálfstæði þýðir það að þingið eða nefndir þess séu ekki með puttana í því hvernig Ríkisendurskoðun vinnur mál eða hvað Ríkisendurskoðun segir og hvernig Ríkisendurskoðun kemst að sinni niðurstöðu. En það þýðir ekki að Ríkisendurskoðun geti bara sagt: Nei, ég ætla ekkert að skoða þetta. Það má ekki túlka sjálfstæði ríkisstofnana þannig að þær geri bara ekki neitt af því sem þeim er sagt — ég vil ekki nota þetta orðalag — þær geri ekki það sem óskað er af þeim eða þær beðnar um. Mér finnst þurfa að athuga þetta svolítið.

Við höfum verið að ræða hér undanfarna daga annað frumvarp um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Það er nákvæmlega eins unnið og þetta, sama gamla frumvarpið og var hér í fyrra er lagt fram. Í utanríkismálanefnd komu fram margar athugasemdir um það frumvarp. Hæstv. utanríkisráðherra, sem leggur frumvarpið fram, kærir sig kollóttan um það og leggur fram sama frumvarpið. Það sama gerir forsætisnefnd þingsins. Mér finnst þetta mjög skrýtin vinnubrögð og segi ekki meira um það.

Tökum líka með sjálfstæði stofnananna. Þetta eru fagstofnanir. Þróunarsamvinnustofnun er fagstofnun. Hún á að fá að vera það sem hún er. Það þýðir ekki það að ráðuneytið sem yfir henni er hafi ekki einhverja hugmynd um hvernig hún á að starfa og geti beðið hana um að vinna þetta verkefnið eða hitt verkefnið eða annað þar fram eftir götunum. Það er alveg sama með Ríkisendurskoðun. Sjálfstæði hennar felst ekki í því að segja: Nei, við ætlum ekki að gera þetta. Við ætlum ekki að fara að óskum þingsins. Af hverju? Af því að við erum sjálfstæð og þið segið okkur ekkert fyrir verkum. Það finnst mér ekki vera rétt.

Virðulegi forseti. Ég er verða búin með tíma minn. Ég hélt sannast að segja að ekki tæki svona langan tíma að koma þessu á framfæri.

Málið fer núna til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég er ekki lengur í þeirri nefnd, en ég mun vissulega fylgjast með þessu í 2. umr. og taka þátt í henni, af því að þetta er, eins og kom fram hjá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, mjög mikilvægt frumvarp. Það er mikilvægt að við færum ríkisendurskoðunarlögin um stofnunina til nútímans en séum ekki alltaf í einhverri fortíð og segjum bara: Ja, við í forsætisnefnd, við hérna á þinginu ætlum að hafa þetta svona, alveg sama hvað sérfræðingar í þessum efnum segja. Alveg sama hvað ný lög um endurskoðun segja. Alveg sama hvaða reglur við þurfum að taka upp af því að við erum í EES og þar eru lög um endurskoðendur. Við ætlum samt sem áður bara að hafa þetta svona.