145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

101. mál
[13:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta mál nú í annað sinn. Það var lagt fram á síðasta vetri, á síðasta þingi og því miður náðum við ekki að klára það þá en mikið gekk á.

Mig langar í upphafi að segja að við höfum auðvitað beðið eftir þessu lengi og megintilgangurinn með tillögunni er eins og kemur fram í 10. gr. skipulagslaga að setja fram samræmda stefnu um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins hverju sinni. Það er auðvitað mikilvægt fyrir sveitarfélögin að hafa aðgang að einhverju alvörusamtali og alvörusýn hins opinbera eða ríkisins eins og þessu og hér er margt mjög gott. En mig langar samt í upphafi áður en ég fer í nokkra þætti sem ég vil nefna sérstaklega áður en við fáum málið til nefndarinnar að ræða almennt um meðferð svona stefnu og meðferð þingsályktana. Við höfum því miður orðið vör við það að við samþykkjum hér þingsályktunartillögur eins og t.d. rammaáætlun, sem menn fara síðan ekki eftir, ekki með fullnægjandi hætti. Menn virðast fara eftir þeim eftir því hvar áhugi þeirra liggur hverju sinni. Mér finnst framkvæmdarvaldið þurfa að taka sig verulega á í þessu.

Ég get nefnt dæmi og farið í gamla umræðu, eða ekki gamla, hún er nú brakandi fersk frá síðasta þingi, um rammaáætlun og hvernig menn umgangast verndarflokkinn. Þar sem ekki virðist vera áhugi á að sinna þeim málum sérstaklega af þessari ríkisstjórn þá er verndarflokkurinn bara hunsaður en menn eru hins vegar tilbúnir að koma inn í þingið og taka slag eftir slag um nýtingarflokkinn. Við þurfum að vera sammála um að stefnunni sé fylgt eftir af fullum þunga, það skiptir máli að við vitum það. Annars er tíma okkar hér ekki vel varið.

Annað dæmi sem ég get nefnt er Evrópusambandstillagan og ætla ég ekki að opna það pandórubox hér en það er enn önnur þingsályktunartillaga sem hefur verið samþykkt á þinginu og menn hafa algerlega sniðgengið og unnið í raun og veru gegn. Við þurfum því að fá fullvissu um það hjá ráðherranum að menn ætli að fylgja þessu eftir af fullum þunga vegna þess að að öðrum kosti verður verkfærið slappt strax í upphafi. Það skiptir máli að þegar við höfum samþykkt þessa fyrstu landsskipulagsstefnu fylgi menn henni eftir af fullum þunga þannig að við sýnum það frá upphafi að okkur sé full alvara með henni, þetta séu ekki bara falleg orð á blaði. En gott og vel.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði. Eitt langar mig í fyrsta lagi að nefna. Ég hef haft svolítið gaman af að fylgjast með umræðunni í kringum skipulagsmál hjá Reykjavíkurborg. Manni hefur fundist að minni hlutinn þar hafi gagnrýnt stjórnvöld í Reykjavík dálítið harkalega undir því yfirskini að þetta séu allt meira og minna einhverjir hjólandi hippalingar sem vilji gera slíkar breytingar á borgarskipulaginu að það sé ekkert annað en aðför að einkabílnum. Þið þekkið öll þessa umræðu. Þess vegna þykir mér gríðarlega gott að sjá í þessari landsskipulagsáætlun að þar er beinlínis stutt við þá stefnumörkun sem hefur átt sér stað við skipulag í Reykjavík. Á bls. 8 í þingsályktunartillögunni er fjallað um sjálfbært skipulag þéttbýlis. Þar er fjallað um skipulag byggðar og lagt til að það verði stefna ríkisins að skipulag byggðar skuli stuðla að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Svo er byggt undir þetta líka í athugasemdum með tillögunni en þar kemur fram varðandi markmið um sjálfbært skipulag þéttbýlis sé áhersla lögð á að blanda atvinnustarfsemi og tengja hana íbúabyggð, stytta vegalengdir vegna daglegra athafna og lækka þannig kostnað samfélagsins vegna innviða, svo sem gatna og veitukerfa. Einnig eigi að skapa skilyrði fyrir almenningssamgöngum og öðrum valkostum um ferðamáta.

Ég verð að segja það alveg eins og er að það hlýtur að vera fagnaðarefni að við sjáum stuðning við þessa stefnumörkun í landsskipulagsstefnu sem samþykkt er hér á Alþingi. Vonandi getum við þá komið þessari umræðu á eitthvert skikkanlegt plan vegna þess að hún hefur auðvitað ekki verið í lagi og þetta er leiðin áfram fyrir þróun borga, þróun þéttbýlis í framtíðinni. Þetta er það sem ég held að við sem búum í þéttbýli köllum eftir, þ.e. við eyðum minni tíma í bílnum og meiri tíma með okkar nánustu. Það er krafan. Þá verðum við að samþætta þá hugsun inn í allt skipulag þegar við skipuleggjum nánasta umhverfi fólks. Ég vona að samþykkt þessarar stefnu sé skref á þeirri leið að þessi hugsun verði almenn en ekki umdeilanleg eins og verið hefur. Líklega hefur hún bara verið umdeilanleg vegna þess að þeir sem hana gagnrýndu töldu að það væru ekki réttir pólitískir aðilar sem báru hana fram. Það er líklega kannski frekar ástæðan. En ég fagna þessu og það er gott að við náum saman um þetta.

Ég fagna því líka sem hér er fjallað um varðandi skipulag á hafi og strandsvæðum. Það er fyrir eyríki eins og okkur sem erum með jafn stóra efnahagslögsögu og raun ber vitni orðið löngu tímabært. Það tekur auðvitað tíma að þróa svona stefnu og ég hlakka til að fjalla um hana. Ráðherra hefur boðað sérstakt frumvarp um þessi mál seinna í vetur þannig að við munum fjalla um þau í heildarsamhengi og í enn stærra máli. Ég hlakka til að takast á við það verkefni vegna þess að maður hefur heyrt um þetta verkefni í töluverðan tíma. Háskólasetur Vestfjarða hefur verið að vinna með það og ég heyrði af þessu fyrst þar sjálf fyrir líklega tíu árum síðan. Fræðasamfélagið hefur því tekið þetta mál og unnið það vel og það skilar sér vonandi í dálítið góðu og massífu frumvarpi í vetur þannig að við getum farið að taka skref fram á við. Það sem þar er á ferðinni er að menn horfa á skipulag hafsvæða og strandsvæða með nýjum og heildstæðari hætti en ekki í þeim bútum sem við höfum séð hingað til án þess að ég hafi tíma til að fara í það. En ég hlakka til að takast á við það verkefni í vetur og sjá það mál hjá ráðherranum þegar þar að kemur og vil þakka fyrir hversu vel hún hefur haldið á því máli og ýtt því áfram þannig að við förum að sjá það fullbúið á þessu þingi.

Að lokum vil ég nefna eitt sem mér finnst skipta mjög miklu máli í þessu og það er skipulag miðhálendisins. Í þessari þingsályktun um landsskipulagsstefnu er fjallað um skipulag á miðhálendi Íslands og þar segir í 1. kafla að standa verði vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og við uppbyggingu innviða á miðhálendinu verði að taka tillit til þess. Síðan er fjallað um þetta í miklum smáatriðum. Við í Samfylkingunni höfum ályktað um það á síðasta vetri að ganga verði lengra en hér er fjallað um með því beinlínis að taka skrefið alla leið og ákveða að setja á laggirnar þjóðgarð á miðhálendinu vegna þess að með þjóðgarði má tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta miðhálendisins og tryggja að sú merkilega náttúra verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla, fyrir utan verndun hennar. Við teljum að það ætti að gera það með miklu öflugri hætti með því að taka skrefið alla leið og lýsa því yfir að þarna verði þjóðgarður á miðhálendinu. Það er mikill stuðningur við þetta í samfélaginu, ég held að við séum flest komin á þá skoðun að það eigi að gilda önnur lögmál um miðhálendið og það sé orðið tímabært að taka þau skref að stofna hreinlega þjóðgarð á miðhálendinu.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram þingsályktunartillögu um það mál sem komið er inn í þingið og verður vonandi mælt fyrir fljótlega og ég vona innilega að ráðherra sé til í að skoða það mál mjög vel og athuga hvort hún telji ekki eins og við að tímabært sé að taka einfaldlega það skref að hefja friðlýsingarferli sem fylgir stofnun þjóðgarðsins og ganga skrefinu lengra en í þessari tillögu. Við erum sammála um markmiðin (Forseti hringir.) og með því að stofna þjóðgarð náum við miklu betur að tryggja markmiðin sem kveðið er á um í landsskipulagsstefnu.