145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

siðareglur fyrir alþingismenn.

115. mál
[14:30]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta þings framsögu í þessu máli, tillögu til þingsályktunar. Ég get nú ekki á mér setið og greint frá ýmsum skoðunum mínum varðandi siðareglur.

Ég hef ávallt hrokkið við þegar stofnanir eða fyrirtæki setja sér siðareglur og mér finnst það yfirleitt gerast að gefnu tilefni, þ.e. að einhver hafi gert eitthvað af sér, lent í klandri, þannig að það hafi orðið að setja siðareglur vegna þess að sjálfsagðir hlutir voru ekki virtir.

Í þessari tillögu til þingsályktunar er í sjálfu sér ekkert sem truflar mig verulega. Það liggur svo sem í augum uppi, eins og kemur fram í 10. gr., að þingmenn eiga ekki að þiggja mútur vegna starfa sinna eða bara almennt að þiggja mútur. Það liggur líka í augum uppi að þingmenn eiga að vera, við getum sagt óháðir í störfum sínum, þ.e. hvorki háðir í afkomu sinni, skuldum, eignum eða jafnvel háðir, ja svo maður bara taki fíkn, háðir fíknum, að menn séu svona nokkurn veginn allsgáðir. Um þetta er svona hér um bil fjallað í þessum siðareglum, þannig að ég get alveg sætt mig við þessar sjálfsögðu reglur.

En mér finnst rétt að minna þingmenn á að víða eru til siðareglur í löggjöf. Til dæmis er hlutafélagalöggjöfin út í gegn siðareglur, þ.e. umgengnisreglur þeirra sem leggja saman í félag um ákveðna starfsemi og þeir kalla hlutafélag. Sömuleiðis sú löggjöf sem ég kannast þokkalega við, verðbréfaviðskiptalöggjöfin, hún er siðareglur. Lög um fjármálafyrirtæki eru nánast byggð á siðareglum. Og regla Fjallræðunnar sem almennt er kölluð gullna reglan: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Ef þetta er rétt munað, það er nú alltaf verið að breyta þýðingunni, þannig að það getur vel verið að þetta sé rangt hjá mér. En þetta er það sem ég tel að siðareglur gangi út á og þingmenn eigi að hafa í huga.

En það eru hér hlutir settir fram í rangri röð vegna þess að í einhverju siðaæði sem rann á þingið datt mönnum fyrst í hug að setja reglur um hagsmunaskráningu, sem ég tel að eigi að koma á eftir siðareglunum. Það hefur stundum truflað mig, þær miklu kröfur sem eru gerðar til skráningar eigna í fasteignaskráningunni, en engar kröfur eru gerðar til skráningar skulda. Ég tel að sá sem er skuldum vafinn, eins og skrattinn skömmunum, sé miklu háðari og hættulegri en sá sem er fjár síns ráðandi. Ég ætla bara í eitt skipti fyrir öll að nota þetta tækifæri, fyrst þetta ber á góma í þingsal, að koma þessari skoðun minni á framfæri.

Annað vildi ég nefna, sem er nú kannski náskylt mútuákvæðinu, þ.e. meðferð upplýsinga. Enn og aftur vísa ég til laga um verðbréfaviðskipti þar sem talað er um innherjaupplýsingar, að þingmenn eru náttúrlega bundnir af því, ég lít á þetta allt sem sjálfsagða hluti.

Það að ég komi hér upp í fámennum sal stafar ekki af andstöðu minni heldur miklu fremur vil ég aðeins segja það að mér finnst það fjandi hart að setja þurfi sjálfsagðar reglur, að það skuli þurfa, við skulum segja færa í búning sjálfsagðar reglur sem öllum eiga að vera ljósar og menn eiga að hegða sér eftir.

Það getur vel verið að horfa megi á þetta í ljósi sögunnar. Vísað er til samþykktar Alþingis frá því í júní 2011. Árið 2011 er jú skömmu eftir 2008. Þá rann siðaregluæði á þjóðina, setja átti öllum siðareglur en það var nær undantekningarlaust vegna þess að menn höfðu gert eitthvað af sér. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Er þetta sett af samviskubiti eða er þetta sett af heilum hug?

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni, en ég vona að þingheimur allur sýni af sér siðræna hegðun.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.