145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[14:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál 22 þingmanna úr stjórnarandstöðuflokkunum sem flutt er sameiginlega undir forustu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Málið er gríðarlega mikilvægt í þeim vanda sem við okkur blasir og við höfum verið að tala um á síðastliðnum dögum, vikum og missirum. Málið er þess eðlis að ég tel að það þurfi að fá mjög hraða meðferð í gegnum þingið.

Málið varð til á síðasta þingi en tekin var ákvörðun um að leggja það fram núna, þannig að það er ekki nýtt af nálinni, enda svo sem orðið ljóst fyrir þó nokkru síðan í hvað stefndi. Við erum að horfa á fordæmalausar og skelfilegar aðstæður núna í málefnum flóttamanna sem við þekkjum öll vel.

Ég held reyndar að umræðan hafi tekið töluverðum breytingum sem merkja má af máli innanríkisráðherra í morgun þegar hún sagði réttilega að við værum ekki lengur að tala um einhvern hefðbundinn flóttamannavanda, við erum að tala um þjóðflutninga. Það er aðkallandi vandi þegar fólk streymir núna í örvæntingu sinni yfir Miðjarðarhafið og til Evrópu vegna þess að aðstæður heima fyrir eru algerlega óbærilegar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur sárnað það að talsmenn Íslands út á við skuli á undanförnum dögum hafi aðallega verið að láta það fara í taugarnar á sér hvort og hvernig Evrópusambandið segði okkur til um það hve miklum fjölda við ættum að taka á móti. Mér finnst þetta ekki rétti tíminn eða málefni til að fara í einhverja sjálfstæðisbaráttu gagnvart Evrópusambandinu þegar við erum að taka á móti Evrópulöggjöf hér nánast á hverjum degi, sem við mættum oft leggja okkur meira fram um að gera breytingar á. Það er ekki þannig að mínu mati þegar svona stórfenglegur mannlegur harmleikur á sér stað að við tökum þá það mál til að sýna að við getum staðið á okkar eigin fótum. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að menn komi sér saman um að takast sameiginlega á við risamál eins og þetta þar sem mannslíf er undir.

Ég hef líka verið verulega ósátt við það með hvaða hætti forsætisráðherra hefur nálgast þetta mál vegna þess að mér finnst eins og hann hafi verið að gefa í skyn að þeir sem flýja yfir Miðjarðarhafið og koma inn til Evrópu séu hópur sem við ættum ekkert sérstaklega að horfa til vegna þess að þeir hafi komið í skjóli einhverra glæpasamtaka og það eigi ekki að umbuna þeim sérstaklega fyrir það. Við erum ekki að tala um neitt normalástand. Við erum að tala um meiri háttar neyð þjóða, þá getum við ekki leyft okkur að tala með þeim hætti. Þeir sem koma yfir til Evrópu eru vissulega þeir sem hafa bestu líkamlegu burði til þess, ekki alltaf en oft, og þá eru þeir oft undanfarar, þ.e. þeir fara frá fjölskyldum sínum, ákveðið er að fjármagna einn til að fara en síðan komi fjölskyldan. Við verðum líka að horfa til fjölskyldusameiningar, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi áðan. Við megum ekki skipta þessu fólki upp í einhverja flokka, að það sé betri eða verri flóttamenn en aðrir. Við þurfum að horfa á þá alla eins. Neyðin er öll sú sama og þetta fólk er allt saman með fjölskyldur, með tengsl og með sama rétt til að leita sér hjálpar. Við þurfum frekar að horfa til þess að þeir sem ná að komast til Evrópu eru vissulega sterkir. Þeir eru vissulega með líkamlega burði til þess, en án efa í flestum tilfellum eru þeir að koma á undan fjölskyldum sínum, þeir hafa þurft að skilja fjölskyldu sína eftir heima við sem þeir ætla að sameinast síðar. Það er þetta sem við verðum að horfa á.

Mér hefur þótt sú umræða ofboðslega erfið að með því að taka á móti flóttamönnum þá sé verið að taka eitthvað frá öðrum. Við megum undir engum kringumstæðum stilla málinu þannig upp. Það að taka á móti flóttamönnum lækkar ekki kjör eða veldur því að kjör annarra hópa hér í landinu versni. Það er ekki þannig. Ég veit ekki betur en rannsóknir sýni það meira og minna að þeir sem koma nýir og setjast að í nýju landi — þó að einhver kostnaður fylgi því til að byrja með þá skilar það sér mjög fljótlega til baka til samfélagsins. Umfjöllun er um þetta í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem dregnar eru saman rannsóknir sem sýna að það hafi jákvæð efnahagsleg áhrif að taka á móti hópum fólks hingað og það er vel rökstutt, þannig að menn þurfa ekki og eiga ekki og mega ekki óttast þetta.

Ég held að komin sé mjög góð þverpólitísk samstaða um þetta mál og um það að við þurfum að leggja okkar af mörkum. Þess vegna hef ég undrast það hvers vegna ríkisstjórnin er svona lengi að lýsa því yfir opinberlega að við ætlum að taka á móti flóttamönnum. Rauði krossinn hefur sagt að við séum tilbúin til þess, á annan tug sveitarfélaga hafa sagt að þau séu tilbúin til þess, þannig að ekki vantar yfirlýsingarnar um það. Við vitum líka mætavel að innviðir okkar eru sterkir og við getum vel gert þetta.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með umræðuna í morgun þegar ég átti orðastað við félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún stóð hérna og talaði eins og það væri hægt að bera ástandið núna saman við ástandið á síðasta kjörtímabili, þegar við vitum að fjölgunin í hópi flóttamanna hefur orðið gríðarleg á undanförnum tveimur árum, og eins og innanríkisráðherra bara leiðrétti hana hér í annarri fyrirspurn, að við erum ekki lengur að tala um flóttamannavanda heldur þjóðflutninga. Ég trúi því ekki að við séum með félagsmálaráðherra í landinu sem sér þetta ekki, heldur er hún enn að telja hausa og bera saman, að það sé nú svona smotterí, sú hlutfallslega aukning núna frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við stöndum núna frammi fyrir fordæmalausu ástandi, ástandi sem við verðum að grípa inn í og taka þátt í að bæta og við verðum að leggja okkar af mörkum.

Ég vona að okkur takist að ná saman um þessa þingsályktunartillögu vegna þess að hún er algert lágmark í því sem við eigum að leggja af mörkum. Og ef okkur tekst að gera meira í þeirri vinnu sem fram undan er, þá er það eitthvað sem væri líka enn betra. En þetta er algert lágmark og við eigum að geta náð saman um það að taka á móti 500 manns eins og lagt er til í tillögunni.

Ég vil enn og aftur setja það saman í samhengi í mínu nánasta umhverfi. Í blokkarlengjunni sem ég bý í búa rétt tæplega 500 manns. Það er ekki meira en það, verkefnið er ekki stærra. Þetta er svona kannski rétt rúmlega fjöldi íbúa í blokkarlengjunni minni. Við skulum sýna hvað í okkur býr, Íslendingar, og samþykkjum þessa tillögu. Ríkisstjórnin er með stuðning frá þinginu og skýra yfirlýsingu um það hvað henni beri að gera á komandi árum og greinum það þá líka betur í vinnunni hvort við getum ekki jafnvel tekið á móti fleirum og búum okkur þá til einhver viðmið í því með hvaða hætti við tökum ákvörðun um fjölda hverju sinni þannig að þetta verði hluti af stefnumörkun til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að ég vona innilega að ríkisstjórnin muni koma með tilkynningu á morgun um það að hún ætli að taka á móti myndarlegum hópi flóttamanna. Þó að við séum fá þá erum við samt sem áður með sterka innviði og við erum ein af ríkustu þjóðum í heimi og hópur af flóttamönnum á eingöngu eftir, til lengri tíma litið, að auka samfélag okkar að svo mörgu leyti, ekki bara efnahagslega heldur líka menningarlega og styrkja okkur til lengri tíma. Þar að auki er það þannig að í gegnum söguna hafa orðið svona stórir atburðir og þá er það skylda hverrar þjóðar að grípa inn í. Eða ætlum við að skilja það eftir í sögunni að við höfum ekki gert neitt í þessu fordæmalausa ástandi? Ég trúi því ekki og það væri Íslandi til skammar.