145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðgarður á miðhálendinu.

10. mál
[16:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langaði örstutt að koma hingað upp og fagna þessu máli sem er að mínu mati mjög gott. Þessi tillaga hefur nokkrum sinnum komið frá hv. þingmönnum Vinstri grænna og er hið besta mál.

Ég hef stundum í nördaskap mínum legið yfir Alþingisvefnum og lesið tillögu Hjörleifs Guttormssonar, sem vitnað var í í ræðu hv. flutningsmanns hér áðan, um stofnun þjóðgarða í kringum jöklana, þ.e. Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Ég hef verið mjög hrifinn af þeirri hugmynd að búa til einn þjóðgarð á miðhálendinu. Ég hefði í rauninni viljað ganga enn lengra en það og sameina undir þann hatt Þingvallaþjóðgarð og Þjóðgarðinn Snæfellsjökul þannig að menn væru með á sömu hendi einn stóran þjóðgarð sem væri í rauninni ekki endilega staðsettur á einum og sama staðnum. Það mætti sjá fyrir sér að friðland að Fjallabaki, friðlandið í Lónsöræfum og fleiri svæði eins og Þórsmörk mundu tilheyra þessum þjóðgarði. Ég held að þá yrði mun einfaldara að skipuleggja þessi svæði með tilliti til rannsókna á náttúrufari og með tilliti til þess að viðhalda þeirri náttúru sem þar er ósnortinni fyrir það sem hún er í sjálfri sér og líka sem vettvang fyrir okkur sem búum á þessu landi og ferðamenn til að koma og upplifa snertingu við eilífðina sem finna má á þessum stöðum sem hafa í raun og veru ekki verið snertir af mönnum.

Það ætti ekki að vera mikill fórnarkostnaður fyrir Íslendinga að ákveða að friða þessi svæði. Þau eru á mörkum hins byggilega. Það eru afar fáir sem gætu hafst við allan ársins hring á þessum svæðum. Það er ekki hægt að sjá fyrir sér að margvísleg atvinnustarfsemi geti þrifist þar. Á jaðri þessa svæðis, sérstaklega þegar kemur að Þjórsá, er verið að nýta náttúruna með mjög afkastamiklum hætti í einum sex eða sjö vatnsaflsvirkjunum. Það er algerlega komið að ystu mörkum þess sem hægt er að gera án þess að raska þessu svæði alveg fullkomlega.

Það er auðvitað þannig að það er sitt hvað umhverfi og náttúra. Við höfum tilhneigingu til þess í umræðu um umhverfisvernd og náttúruvernd að blanda hvoru tveggja saman en umhverfið er eitthvað sem við mennirnir búum í og höfum haft áhrif á og mótað eftir okkar þörfum, að mörgu leyti til þess að hafa stjórn á náttúruöflunum, sérstaklega kannski á Íslandi.

Þegar kemur að náttúru Íslands þá erum við einfaldlega að mörgu leyti með einstaka vistgerð sem á sér eiginlega enga líka í heiminum. Það þarf því að grípa til aðgerða til að vernda eins mikið af þessum svæðum og mögulegt er. Það er ekki bara eitthvað sem menn ættu að velta fyrir sér af skyldurækni við komandi kynslóðir eða við okkur sjálf sem byggjum þetta land núna. Ég held að það sé skylda okkar á heimsvísu að passa upp á það sem finna má í náttúru Íslands.

Ég er ekki að tala um náttúru Íslands sem eitthvert fyrirbæri sem ekki megi gera neitt í eða hrófla við á nokkurn hátt. Ég lít ekki á þjóðgarða sem fyrirbæri sem feli það í sér að ekki megi gera neitt á svæðunum. Þvert á móti finnst mér að þjóðgarðar eigi að vera lifandi. Mér finnst að fólk eigi að geta ferðast um þjóðgarða. Mér finnst að fólk eigi að geta komist í snertingu við þá náttúru sem þar er og mér finnst mjög miklu máli skipta að það sem þar er gert sé gert með tilliti til þess að menn séu að passa upp á upplifun þeirra sem þangað koma. Það er hægt að passa upp á upplifunina þó að menn hafi nýtt náttúruna með einum eða öðrum hætti. Það er auðvitað hægt að njóta fegurðar við Hágöngulón þó að það lón sé manngert. Það er mjög gott dæmi um svæði þar sem maðurinn hefur með afskiptum haft veruleg áhrif á landslag en það er í raun ekkert í því landslagi sem minnir á aðkomu mannsins, nema kannski stíflumannvirki hvorum megin við Syðri-Hágöngur. Þar fyrir utan er þessi upplifun af ósnortinni náttúru af nálægðinni við þennan stóra jökul með Bárðarbungu og Tungnafellsjökul sams konar upplifun og af því að vera í nágrenni við algerlega ósnortna náttúru.

Mér finnst hins vegar að þjóðgarður sé stjórntæki til að ná utan um svona svæði og nýta þau með tilteknum, skipulögðum hætti svo að svæðin sem um ræðir njóti sérstakrar verndar og hugmyndir sem menn hafa uppi um atvinnustarfsemi o.fl. þurfi fara í gegnum ákveðna ferla.

Mér finnst felast ákveðin tækifæri í því að búa til einn stóran þjóðgarð á Íslandi, sem næði yfir friðlönd og þjóðgarða sem fyrir eru og jafnvel að einhverju leyti þjóðlendur, að því leytinu til að þarna er um mjög viðkvæm svæði að ræða sem gilda mjög sérstök lögmál um. Það er ekkert sjálfgefið að þeir ferðamenn sem koma til landsins og njóta kannski leiðsagnar leiðsögumanna frá öðrum löndum, sem eru fullbærir til þess og með öll réttindi til að leiðsegja fólki um íslensk öræfi, að þeir séu meðvitaðir um sérstöðu íslenskrar náttúru. Ég held að sérstök afmörkuð svæði með tilteknum reglum sem gilda um þau gæti til dæmis falið í sér að menn settu þá kvöð á leiðsögumenn að þeir hefðu lokið tilteknu námskeiði í íslenskri vistgerð, í afleiðingum utanvegaaksturs og hvað rask náttúru af þessari tegund felur í sér.

Það eru margir sem koma til Íslands, og ekki bara þeir sem koma til Íslands heldur líka fólk sem býr hérna og ferðast um landið, sem halda að lífrænn úrgangur sé eitthvað sem eyðist bara í náttúrunni og það sé í rauninni allt í lagi að kasta frá sér bananahýði, berki af appelsínu eða skilja klósettpappír eftir undir steini o.s.frv. Við sjáum þess fjölmörg dæmi eftir því sem ferðamönnum fjölgar að þetta virðist vera útbreidd skoðun. En staðreyndin er sú að á sama tíma og þessi úrgangur eyðist á mjög skömmum tíma í erlendri náttúru þar sem hitastigið er öðruvísi þá líður mjög langur tími þangað til íslensk náttúra afgreiðir hann þannig að hann verði ekki áberandi. Það gerir upplifun ferðamanna auðvitað ekki mjög skemmtilega að koma að úrgangi á hálendinu, þó að hann sé lífrænn. Þetta er bara dæmi um það sem ég held að stjórnsýslueining á borð við þjóðgarð á miðhálendinu og jafnvel enn stærri gæti haft í för með sér. Þá værum við ekki bara með einhverjar sérstakar reglur heldur fræðslu, lifandi starfsemi, hefðum einhver tök á því að taka á móti fólki, næðum tengslum við skólakerfið o.s.frv.

Ég fagna þessu máli og hef í hyggju að styðja það og framgang þess á þingi.