145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðgarður á miðhálendinu.

10. mál
[16:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um þjóðgarð á miðhálendinu, sem lögð er fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði ágæta grein fyrir í framsögu sinni. Eins og kom fram í máli hennar á þingsályktunartillagan nokkurn aðdraganda og sögu, bæði hér á þinginu en kannski ekki síður í samfélagsumræðunni, í almennum straumum og stefnum í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Það var kannski þar sem mig langaði að bæta við þau sjónarmið sem hér hafa verið rædd. Í fyrsta lagi þau sjónarmið sem lúta að skilningnum almennt á landslagsheildum. Það eru breytingar á ríkjandi skólum, ef svo má að orði komast, í náttúruvernd sem fyrir nokkrum missirum snerust kannski miklu frekar um ákveðna blettasýn, ef svo má að orði komast, þ.e. þau markmið að vernda tiltekin svæði, búsvæði, tegundir eða gróður fremur en að taka tillit til landslagsheilda. Þeirri sýn hefur vaxið ásmegin og því má segja að þau stefnumið sem við höfum lengst af verið að horfa til, bæði í náttúruverndaráætlun í gegnum tíðina og að hluta til kannski varðandi nálgun okkar í rammaáætlun, höfum við með of ríkum hætti verið að horfa á minni og afmarkaðri svæði.

Þess er skemmst að minnast til dæmis hvað varðar rammaáætlun, að þar eru skilgreindir allnokkrir virkjunarkostir á einu svæði sem fellur allt saman undir það að heita Torfajökulssvæði. Nú er það svo að Torfajökulssvæðið sem heild er á undirbúningsstigi fyrir skráningu á heimsminjaskrá UNESCO og þar kemur engum í hug lengur að horfa á Torfajökulssvæðið sem mörg svæði heldur sem eina samfellda heild.

Við í umhverfisráðuneytinu höfðum á síðasta kjörtímabili verið að undirbúa stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og í þessum anda var farið að horfa til þess að nema ekki þar staðar, sem var stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, heldur að láta friðlýsinguna ná yfir jökulinn sjálfan, þ.e. Hofsjökul, sem mundi þá mynda samfellda heild norður og norðvestur í Guðlaugstungur. Þessi nálgun hefur því verið að styrkjast í friðlýsingarferlum og í náttúruverndarstjórnsýslunni, ef svo má að orði komast, að horfa á stærri og samfelldari svæði. Það kemur þeirri sem hér stendur í sjálfu sér ekki á óvart að þarna hafi brautryðjandinn í náttúruverndarmálum hér á Alþingi, Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur, verið að tala í þeim anda fyrir þó nokkrum áratugum, þ.e. að horfa til fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu umhverfis helstu jökla þess; Vatnajökuls, Hofsjökuls, Langjökuls og Mýrdalsjökuls, því að Hjörleifur ruddi að mörgu leyti brautir í þessum málaflokki og var alltaf stórhuga alveg frá fyrstu tíð þegar þessi mál voru rædd á Alþingi Íslendinga.

Ánægjulegt er til þess að vita að geta haldið því merki uppi en um leið er svo komið í þessu máli, eins og fleirum sem hann á sinni tíð vakti máls á, að fylgjendunum fjölgar. Sífellt fleiri eru þeirrar skoðunar að þessi leið sé góð, þ.e. í fyrsta lagi að horfa til stórra heilda og í öðru lagi að skilja það, ekki bara með höfðinu heldur ekki síður með hjartanu, að íslensku víðernin eru engu lík og þau ber að vernda. Ekki bara fyrir okkur og fyrir vaxandi ferðaþjónustu og vaxandi skilning ferðamanna alls staðar að í heiminum á því að þau víðerni eru verðmæti á heimsvísu, heldur ekki síður fyrir komandi kynslóðir og það sem ég leyfi mér að segja og ég held að við ættum að segja oftar að náttúruna má líka vernda hennar sjálfrar vegna. Ekki endilega vegna núverandi eða komandi kynslóða yfir höfuð því að náttúran getur svo vel þrifist án okkar en við getum ekki án hennar verið og þess vegna er náttúruvernd mikilvæg sjálfrar sín vegna ekki síst.

Hér hefur komið fram að ýmsar ógnir steðja að miðhálendinu og víðernunum þar. Ég vil þó segja að í umræðunni um raflínur á síðasta þingi, 144. þingi, og um landsskipulagsstefnu á því hinu sama þingi og í umræðum og samtali við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hér fyrr í dag um landsskipulagsstefnu, þá fjölgar þeim röddum líka þegar við erum að tala um raflínur, vegagerð og landsskipulag að þau sjónarmið séu rædd undir þeim þingmálum. Það er liðin tíð að vernd miðhálendisins og vernd víðernanna á Íslandi sé bara á dagskrá undir slíkum liðum hér í þinginu. Þess vegna vil ég leyfa mér að trúa því að tíminn hafi unnið með þeim sjónarmiðum og að þingmönnum fjölgi í öllum flokkum sem færast nær þeirri hugmyndafræði að vernd hálendisins, miðhálendisins og víðernanna sé skynsamleg og mikilvæg ákvörðun sem gæti verið á okkar borði og gæti markað mikilvæg spor í náttúruverndarsögunni á Íslandi.

Ég vona að þessi ágæta tillaga fái framgang, við höfum séð það í umfjöllun um tillöguna og viðlíka hugmyndir í samfélaginu, eins og kemur fram í greinargerð með málinu að árið 2011 fengu helstu náttúruverndarsamtök landsins Capacent Gallup til að annast skoðanakönnun um viðhorf landsmanna til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendinu og þá kom í ljós að 56% þeirra sem svöruðu voru hlynnt stofnun slíks þjóðgarðs. Þannig að þessi tillaga sem hér er mælt fyrir og lögð fram endurspeglar meirihlutavilja þjóðarinnar. Ég hef því væntingar til þess að vilji sé til þess á Alþingi að endurspegla þann þjóðarvilja með því að afgreiða þessa þingsályktunartillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem er eitt af forgangsmálum okkar á þessu 145. þingi til enda.

Þjóðgarðar eru í sjálfu sér mikilvæg og merkileg fyrirbæri vegna þess að þeir snúast ekki bara um vernd, rannsóknir og skráningu náttúruminja heldur ekki síður hvílir á þjóðgörðum sú skylda að fræða og upplýsa allan almenning á öllum aldri og ekki síst yngstu kynslóðina um verðmætin sem náttúran býr yfir. Fræðsluhlutverkið er ekki síður mikilvægt og það er spennandi, ánægjulegt verkefni sem mundi blasa við nýjum þjóðgarði og þeim stjórnvöldum sem þar um véluðu að búa til öflugt fræðsluprógramm um nýjan miðhálendisþjóðgarð á Íslandi.