145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðninginn frá hv. þingmanni. Það er rétt að sá sem hér stendur hefur miklar mætur á fyrrverandi lögreglustjóra, Stefáni Eiríkssyni, og fyrrverandi þingmanni og yfirlögreglustjóra, Geir Jóni Þórissyni.

Ég veit ekki hvernig ég á að svara nákvæmlega þessu með anarkismann. Ég kalla mig alla vega ekki anarkista lengur, ég skal alveg viðurkenna það fúslega að (Gripið fram í.)ég geri það ekki lengur. — Ég skal segja hv. þingmanni það. Það er vegna þess að ég hef aldrei í lífinu hitt tvo anarkista sem eru sammála um hvað anarkismi sé. Þannig að þegar maður fer að ræða það þá endar umræðan aldrei um einhver málefni sem varða frelsið og allt það (ÖS: Það er anarkismi í hnotskurn.)heldur skilgreininguna á orðinu. (ÖS: Það er anarkismi …) Mér leiðist slík umræða. Hún er kannski mikilvæg, en mér leiðist hún. Enda vil ég bara benda á að eitt af grunngildum Pírata finnst á okkar ágætu vefsíðu piratar.is, með leyfi forseta:

„1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.“

Það er beinlínis í hugmyndafræði Pírata að taka mark á fólki og stofnunum sem þeir eru hugsanlega tortryggnir gagnvart. Það er hluti af gagnrýninni hugsun að mínu mati.

Það gleður mig auðvitað að stuðningur komi frá lögreglunni. Ég undirstrika að málstaðurinn er góður, jafnvel þótt hann sé pínu pons anarkískur. (Gripið fram í: Lifi anarkisminn.)