145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla hvorki að lengja þessa umræðu mjög mikið né stríða hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Mér fannst málflutningur hv. þingmanns vera sannfærandi og góður og mér finnst, miðað við það sem maður hefur heyrt úr þessum ræðustól, að það séu málefnaleg rök fyrir því að fara vel yfir þetta mál og samþykkja ef það er eins og búið er að leggja upp hér. Þá vísa ég til þess að það skiptir auðvitað máli að gæta að persónufrelsi einstaklinganna sem er grundvallaratriði í okkar réttarríki og ég held að það fari oftast saman við að auðvelda lögreglumönnum sitt starf. Ég ætla að hrósa hv. þingmanni fyrir góða framsöguræðu og ég held að þetta mál sé þess virði að skoða það vandlega. Vonandi verða þingstörfin þannig í vetur að við nálgumst málin með þeim hætti, bæði þetta og önnur, og förum ekki í sama farið og við höfum verið undanfarin þing. Þá þurfum við öll að leggjast á eitt til að svo megi verða.