145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að hv. þm. Össur Skarphéðinsson upplýsi þingheim um að það er ekki uppeldinu um að kenna að hann hafi villst yfir á vinstri væng íslenskra stjórnmála. (Gripið fram í.) Það kemur mér ekkert á óvart, ég er alveg sannfærður um það og veit að hann fékk gott uppeldi og er ekkert að álasa foreldrunum fyrir að þetta fór eins og það fór, en það er önnur saga sem við ræðum ekki.

Ég er nú bara þannig gerður að í hvert skipti sem ég heyri hv. þingmenn, sama úr hvaða flokki þeir koma, slá tón sem snertir við hjartanu í á mér eins og hér hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni þá fagna ég. (ÖS: … ekki leiðina að hjarta hv. þingmanns.) Hv. þingmaður kvartar undan því að hann hafi ekki fundið leið að mínu pólitíska hjarta, (Gripið fram í.) en ef hann hefði verið bara aðeins fyrr í Alþýðuflokknum, aðeins fyrr inni á þingi þá mætti vekja athygli á því að — nei, Alþýðuflokkurinn greiddi ekki atkvæði með frjálsu útvarpi. Þarna varð mér á í messunni. En ég er alveg sannfærður um að ég get fundið mál sem hann hefur flutt sem er mér að skapi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ég hef auðvitað miklar mætur á eins og hv. þingmaður veit þótt honum finnist ég aldrei hrósa honum nóg en ég reyni nú að bæta úr því eins og ég get.

En aðalatriði málsins er að þegar menn tala eins og sjálfstæðismenn og koma fram með tillögur eins og sjálfstæðismenn eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson þá gleðst ég. Því fleiri, því betra og ég vona bara að þetta sé upphafið að fleiri góðum tillögum frá hv. þingmanni. Eins og ég segi, miðað við þá ræðu sem hv. þingmaður flutti, þá er það ekkert leyndarmál og hefur verið upplýst hér margoft í ræðustólnum af minni hálfu að þetta hljómar afskaplega vel og ég fagna liðsaukanum.