145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er einfalt. Það gengur út á að opna bókhald ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Það var flutt á síðasta þingi. Þá var 1. flutningsmaður hv. þm. Óli Björn Kárason ásamt þeim sem hér stendur og hv. þm. Brynjari Níelssyni en núna flytja málið í forföllum hv. þingmanns sömu flutningsmenn og að auki hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Svo ég lesi beint upp úr breytingartillögunni með frumvarpinu, með leyfi forseta, segir hér um frumvarpið:

„Stjórnvöldum og lögaðilum sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er skylt að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði, nema ákvæði 10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna eigi við. Skulu upplýsingarnar vera öllum aðgengilegar og birtar sem mánaðarlegt yfirlit á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þar skal kaupfjárhæð koma fram, ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá skulu einnig fylgja upplýsingar um hver seljandi er.

Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2016.

Megintilgangur frumvarps þessa er að tryggja aðgang almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis sem sveitarfélaga, verja sameiginlegum fjármunum. Aðgangur almennings að slíkum upplýsingum er sjálfsagður og eðlilegur.

Þá mun birting þeirra leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild.

Kaup ríkis og sveitarfélaga á vörum og þjónustu á árinu 2013 voru tæp 28% af heildartekjum sem námu tæpum 797 milljörðum kr. Þá eru ótalin kaup fyrirtækja sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila. Með samþykkt frumvarpsins munu ekki eingöngu ráðuneyti, undirstofnanir þeirra og sveitarfélög þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keyptar vörur og þjónustu, heldur einnig öll fyrirtæki sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.

Hér er ekki lagt til að félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem byggja rekstur sinn að mestu eða öllu leyti á framlögum frá ríki eða sveitarfélögum falli undir ákvæðið. Flutningsmenn telja hins vegar að í náinni framtíð sé nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um slíka almenna upplýsingaskyldu aðila sem þiggja opinbert fé. Þannig verði fjárveitingar opinberra aðila bundnar þeim skilyrðum að viðkomandi upplýsi með sundurgreindum hætti hvernig þeim fjármunum hefur verið varið. Á síðustu árum hafa verið stigin ákveðin skref í Bretlandi við að opna opinbera stjórnsýslu og gera fjármál ríkis og sveitarfélaga gagnsærri en áður. Árangurinn er aukið aðhald og sparnaður í innkaupum en ekki síður hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrari vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Þannig hefur samkeppni um viðskipti við opinbera aðila aukist sem hefur leitt til lægra verðs á aðföngum og keyptri þjónustu.

Reynslan í Bandaríkjunum hefur verið svipuð en árið 2006 samþykkti Bandaríkjaþing lög, The Federal Funding Accountability and Transparency Act of 2006, þar sem alríkinu og stofnunum þess er gert skylt að birta opinberlega upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins er varið. Í samræmi við lögin var komið á fót sérstakri vefsíðu, USASpending.gov, þar sem skattgreiðendur geta nálgast upplýsingar um það hvernig alríkið ver fjármunum sínum. Nú hafa a.m.k. 46 ríki Bandaríkjanna opnað svipaðar vefsíður þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um útgjöld viðkomandi ríkis, m.a. um kaup á vörum og þjónustu. Þá hafa margar borgir og sveitarfélög í Bandaríkjunum farið svipaðar leiðir. Upplýsingakerfi og gagnsæisgáttir alríkisins og einstakra ríkja Bandaríkjanna hafa aukið aðhald að fjárveitingavaldinu og embættismönnum. Ábendingar almennings og fjölmiðla hafa leitt til þess að milljónir dollara hafa sparast. Aukinn þrýstingur hefur orðið til þess að opinberir aðilar fara betur með skattfé og sóun hefur minnkað.

Markmið frumvarpsins er ekki aðeins að tryggja betri meðferð opinbers fjár og draga úr sóun heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður. Gagnsæi við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu hamlar því að óeðlilega sé staðið að verki og eykur þar með traust á opinberum aðilum. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að á eftir 13. gr. upplýsingalaga um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda komi ný grein er verði 13. gr. a með fyrirsögninni: Upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu. Markmiðið með greininni er að skylda stjórnvöld og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði. Lagt er til að fjárhæðin hækki miðað við neysluvísitölu annað hvert ár, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.

Í greininni felst jafnframt að upplýsingarnar skuli vera öllum aðgengilegar og birtar á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þannig skuli birtur listi yfir kaup hvers mánaðar innan 40 daga frá kaupum sem voru samþykkt 1. dag mánaðar. Kaupfjárhæð komi fram ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá fylgi einnig upplýsingar um hver seljandi er, þ.e. nafn og kennitala. Nauðsynlegt er að leggja til takmarkanir á þessari skyldu stjórnvalda og lögaðila, sbr. 10. gr. laganna, en samkvæmt þeirri grein er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast. Meta þarf því í hverju tilfelli hvort heimildin til takmörkunar eigi við en hana ber að túlka þröngt út frá meginreglunni sem lögð er til í greininni. Komi fram krafa um aðgang að upplýsingum sem hafa ekki verið birtar samkvæmt greininni og sem lögaðili ásamt æðra stjórnvaldi synjar um aðgang að á grundvelli 10. gr. laganna yrði unnt að bera slíka synjun stjórnvalds undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Með samþykkt frumvarpsins munu ekki eingöngu ráðuneyti, undirstofnanir þeirra og sveitarfélög þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keyptar vörur og þjónustu heldur einnig öll fyrirtæki sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli er þetta svona. Hér er bókhaldið opnað fyrir almenning og aðra til að auka líkurnar á ráðdeild og sparnaði og koma í veg fyrir sóun og spillingu. Fordæmin eru til staðar. Við gerum ekki neitt hér sem enginn hefur gert áður, við erum ekki að finna upp hjólið. Til að vekja athygli á ástandinu eins og það er í dag má nefna að búið er að birta endalausar skýrslur. Margir benda á að það borgi sig fyrir hið opinbera að bjóða út vöru og þjónustu. Til eru rammasamningar, þ.e. sérstofnun sem heitir Ríkiskaup. Nú skyldi einhver segja: Það hlýtur þá að hafa verið gert, en staðreyndin er að það er ekki gert. Maður mundi ætla að það væri t.d. einfalt mál að bjóða út rafmagn, síma og aðra slíka þætti sem spara mundu milljónir, jafnvel tugmilljónir fyrir einstakar stofnanir, en það er ekki gert. Það er ekki einu sinni farið inn á rammasamninginn þar sem ódýrasta varan er. Ég nefni bara tvær vörur af því að þær eru sams konar og ekkert mælir gegn því að slíkt sé boðið út.

Meiri hluti hv. núverandi fjárlaganefndar hefur farið leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Við erum búnir að senda hverju einasta ráðuneyti bréf sem við viljum fá sundurliðað svar við um hvað búið sé að bjóða út og hverju það hafi skilað. Enn sem komið er hefur mjög lítið af upplýsingum borist en þó hefur komið bréf, svo maður sé sanngjarn, frá einstaka ráðuneytum þar sem sagt er að þessar upplýsingar séu á leiðinni. En ég veit það fyrir víst að því er ekki fylgt eftir, hvorki í lagabókstafnum né stefnu stjórnvalda hvað þetta varðar.

Við munum halda því áfram í meiri hlutanum í hv. fjárlaganefnd að fylgja þessu máli eftir en við þurfum augljóslega að ganga lengra og hér er tæki til þess. Það þarf einfaldlega að opna þetta. Ég vek athygli á því að eitt sem tilgreint er í greinargerðinni og ætti að vera smámál snýr að því að þetta auðveldar líka nýjum aðilum, sem oftast eru litlir aðilar, oft einyrkjar sem koma af markaðnum, að koma vöru sinni áleiðis og það er gríðarlega mikilvægt. Þarna er um að ræða kaup hins opinbera upp á nær 800 milljarða kr. þannig að það er eftir miklu að slægjast fyrir þá sem vilja selja vöru og þjónustu og mikilvægt að þeir hafi tækifæri til að vekja athygli á vöru sinni og átta sig á hvar tækifærin liggja, því að tækifæri þeirra sem eru með góða og ódýra vöru eru líka tækifæri fyrir skattgreiðendur.

Það er í þriðja skipti sem þetta frumvarp er lagt fram og ég vonast til þess að það fái afgreiðslu núna. Og þrátt fyrir að færa megi rök fyrir að málið eigi jafnvel heima í annarri nefnd legg ég til að því verði vísað til hv. fjárlaganefndar þó að þetta séu upplýsingalög, vegna þess að þau snerta beint rekstur ríkisins. Það getur ekki verið skýrara. Það er því óeðlilegt að málið fari til annarrar nefndar jafnvel þótt upplýsingalögin heyri ekki undir hv. fjárlaganefnd. En þetta er einmitt mál sem hv. fjárlaganefnd, sem hefur lengri tíma en nokkurn tíma áður til að fara yfir fjárlögin, á að ræða um leið og við förum í gegnum fjárlagavinnuna.

Ég vek athygli á því að ekki er bara um ríkisstofnanir að ræða heldur öll fyrirtæki í eigu ríkisins sem ríkið á meira en 51% hlut í. Þá þýðir það ohf.-fyrirtækin, sem mörg hver hafa lagt mikið á sig til að halda upplýsingum — þau eru náttúrlega ekki mörg, en það eru mjög ljós dæmi um að þau hafi reynt að halda upplýsingum frá hv. fjárlaganefnd og gert okkur mjög erfitt fyrir við að veita eðlilegt aðhald sem við erum þó kosin til að gera.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar til afgreiðslu.