145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gaman að því að verða vitni að endurfæðingu og mér finnst sem hér stígi fram ákveðinn hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins endurfæddir. Allt í einu reisa þeir gunnfánann gegn spillingu. Hv. þingmaður kallaði þetta, sem hann í seinni ræðu sinni nefndi tregðulögmál, spillingu í fyrstu ræðunni.

Það sem hv. þingmaður lýsir er auðvitað ekkert annað en spilling og mér finnst að hv. þingmaður eigi, af því að hann er kjarkaður, að stíga skrefið til fulls og greina fyrir okkur hvernig þetta tregðulögmál birtist í reynd. Mér fannst hv. þingmaður koma mjög nálægt því. En ég sakna þess gagnvart þessari endurfæðingu og því liðsinni sem okkur er að berast í baráttunni fyrir auknu gagnsæi í samfélaginu að það skuli bara vera þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fylkja liði undir forustu hv. þingmanns.

Enn og aftur segi ég: Ég fagna þessu. Það má síðan velta því fyrir sér hvort eitthvert ósamræmi sé í afstöðu þessara þriggja hv. þingmanna sem til dæmis vilja fá upplýsingar um hvaða persónur það kunna að vera sem verið er að kaupa af, allt niður í 150 þús. kr. Ef maður leggur þetta saman þá veltir maður fyrir sér hvort hugsanlega sé farið þarna á svig við það sem við sósíaldemókratískir píratar erum nú stundum að velta fyrir okkur, sem er persónufrelsi, persónuverndin.

Er ekki svolítið rökleg andstaða eða ágreiningur á milli þessa viðhorfs og síðan hins að hv. þingmaður hefur allar götur frá því á sælum dögum hans sem formanns SUS barist gegn því til dæmis að birtar séu upplýsingar um einstaklinga sem varða skatta þeirra? Er þetta ekki pínulítil þversögn?

Ég held að hv. þingmaður sé einn af þeim sem vilja umbreyta sér, gera sig að betri einstaklingi og betri stjórnmálamanni, skilja hlutina betur. (Forseti hringir.) Vill hann þá ekki fara alla leið með okkur, láta til dæmis af andstöðu sinni við það, ef hann ætlar að samþykkja þetta, að menn upplýsi um skatta einstaklinga. (Forseti hringir.) Í sumum löndum er hægt að lesa það bara á netinu.