145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði að vísu í ræðu minni um að þetta væri barátta gegn spillingu og ég átta mig ekki á því hvernig þetta geti talist endurfæðing þegar maður er að flytja mál sem er nákvæmlega í anda þess sem maður hefur barist fyrir frá því að maður byrjaði í stjórnmálum. Eins og ég skil hv. þm. Össur Skarphéðinsson oft þá þarf það ekki að vera alltaf.

Ég hef engar áhyggjur af því að við séum ekki með fullan stuðning Sjálfstæðisflokksins á bak við þetta mál en við vildum hins vegar koma snemma með málið og við þingflokksstjórnin erum á því.

Varðandi persónufrelsið þá er það þannig núna að þú getur kallað eftir upplýsingum til dæmis varðandi sérfræðikostnað. Þá færðu upplýsingar um persónur, það er gert núna. Ég hef meðal annars kallað eftir því og í það minnsta hv. þingmenn úr flokki hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hafa gert það, en menn geta ekki fengið launin; ef sett er á tímabundin ráðning, sem er það sama og sérfræðikostnaður, þá er ekki hægt að kalla það fram.

Varðandi upplýsingar um skattana og samræmið. Hvar ætla menn að draga línuna í því? Vilja menn til dæmis kalla fram upplýsingar um skuldir einstaklinga? Ef þú ert með skattana, af hverju þá ekki skuldirnar og hvaðeina sem við setjum undir hefðbundið persónufrelsi?

Ég hélt, af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er á svo miklu píratasvingi, að hann ætlaði að segja að hann væri á móti því að leggja fram þessar persónulegu upplýsingar um hagi fólks, svona um tíma í ræðunni, en það breyttist aðeins. En við ættum að ræða þau mál í þaula, en það tengist kannski ekki alveg þessu máli og ég held að við ættum að klára það eins hratt og við getum.