145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og sömuleiðis stuðninginn.

Það er mjög eðlilegt að velta upp spurningu um 150 þús. kr. Ef hv. þingmaður fer, sem ég veit að hann mun gera, inn á þá heimasíðu sem vísað er á í greinargerðinni þá sér hann strax vandann. Þetta er svo gríðarlega mikið af upplýsingum. Það væri náttúrlega annað mál ef upplýsingarnar væru settar fram á þann hátt að sem auðveldast væri fyrir fólk að skilja það, svo að maður tali nú bara um hlutina eins og þeir eru, en því mundi fylgja mikill kostnaður. Hver og einn sem ætlar að skoða þetta verður að leggja þó nokkra vinnu í það að átta sig á stóru línunum og hvernig þessi mál liggja. Þannig að 150 þús. kr. eru meira hugsaðar til þess að takmarka aðeins upplýsingamagnið. Kannski þarf ekki á því að halda en eftir því sem ég best veit þá eru alltaf settar einhverjar lágmarksupphæðir, ég geri þá ráð fyrir því að ef maður setti ekki þau takmörk mundi upplýsingunum fjölga verulega án þess að þær mundu kannski nýtast í því sem er markmið frumvarpsins. En auðvitað er 150 þús. kr. markið ekki greypt í stein og það er sjálfsagt að fara yfir það. Mér fannst alla vega þegar ég var að skoða þetta lauslega að það þyrfti að setja einhver takmörk og það er augljóst þegar við horfum til Bandaríkjanna og Bretlands þar sem eru enn stærri stofnanir og enn meiri kostnaður o.s.frv., að þá erum við að tala um enn meira umfang. En 150 þús. kr. eru ekki greyptar í stein, en þetta er ástæðan fyrir því að þær eru þarna inni, virðulegi forseti.