145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg viðurkenna það að ég nota sparlega orðið spillingu. Mín tilfinning er sú, eftir að hafa verið til í nærri fimmtíu ár, og sérstaklega á síðustu árum, að þeir sem hæst tala um spillingu, tala mest um siðleysi og annað slíkt, eru alla jafna sekir um það. Mér hefur fundist mikil fylgni þar á milli. Ég ætla því ekki að ganga um og saka fólk um spillingu án þess að hafa staðfesta vitneskju um það, það geta verið aðrar ástæður fyrir því að menn gera ekki hlutina eins og þeir ættu að gera. Í mínum huga er spilling stórt orð og ég er ekki alveg sáttur við það hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur þetta upp. Ég get tekið undir það að við höfum ekki talað jafn mikið um spillingu og margir aðrir og ég held að það sé vel, ég held að við eigum að nota svona stór orð sparlega, en við höfum svo sannarlega sýnt það í verkum okkar að við erum að auka gagnsæi og draga úr spillingu.

Gagnsæi varð að skammaryrði á síðast kjörtímabili vegna þess að ríkisstjórnin sem talaði mest fyrir gagnsæi var alltaf í einhverjum feluleik. Ég get alveg farið yfir það bæði í löngu og stuttu máli, en mér finnst að umræðan hér eigi að snúast um þetta mál. Ég er ekki hér kominn til að ásaka einn eða neinn. Þetta mál, sem ég veit ekki til að neinn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé á móti, þvert á móti á ég von á stuðningi þar, er fram komið til þess að ná þeim markmiðum sem hér er lagt upp með, þ.e. að gæta betur að fjármunum almennings með því að opna bókhald þessara stofnana.