145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvernig á að gera þessum hv. þingmanni til geðs. Hér kem ég upp og lýsi mjög afdráttarlausum stuðningi við þetta ákaflega góða mál og hv. þingmaður kemur upp í andsvari bara til að kvarta og gráta undan orðum mínum.

Hv. þingmaður virðist vera ósáttur við það hvernig ég fór með notkun hans á orðinu spillingu. Ég er nú óvart í hópi þeirra þingmanna sem nota bókstaflega aldrei það orð. Það var ekki ég sem færði það inn í þessa umræðu heldur var það hv. þingmaður sjálfur. Það stendur í greinargerðinni sem hv. þingmaður las orðrétt upp að markmið þessa frumvarps sé ekki bara að tryggja betri meðferð opinbers fjár heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður.

Hv. þingmaður lýsti því mætavel með hvaða hætti upplýsingaöflun almennings hvað þennan þátt varðar hefur verið torvelduð. Upplýsingum hefur algjörlega verið lokað gagnvart almenningi um þessi efni og við þekkjum það báðir að þetta hefur valdið úlfúð og tortryggni, sérstaklega í hópi þeirra sem vilja gjarnan komast að með sinn varning, og það er fyllilega skiljanlegt.

Ég ætla að endingu að ítreka stuðning minn. Ég vona að þessi ræða mína pirri ekki þingmanninn eins og hin fyrri. Ég styð þetta mál og hef meira að segja gengið svo langt í stuðningi mínum að ég er reiðubúinn til að styðja hv. þingmann í að fara nokkuð óhefðbundna leið varðandi vinnslu málsins.