145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að endurtaka það að ég fagna stuðningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég veit að það munar um minna. Aðalatriði málsins er að við erum báðir sammála um markmið og efni málsins og það er það sem skiptir máli. Svo það sé alveg skýrt þá fagna ég mjög stuðningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég vonast til þess að við getum klárað þetta mál.

Þeim sem fylgjast með þingstörfum fyndist almennt góður bragur á því að menn kláruðu mál þvert á flokka og ég hef alla vega ekki fengið nein efnisleg rök gegn málinu fram til þessa. Það er auðvitað ekki að marka því að hér hafa tveir fræknir hv. þingmenn komið og lýst yfir stuðningi við málið. En um leið, sem ég geri engar athugasemdir við, er ég spurður spurninga og ýmsum þáttum málsins velt upp. Það er það sem við eigum að gera, bæði í þingsal og í nefndastörfum.