145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að ítreka algeran stuðning minn við þetta góða mál. Enn finnst mér hins vegar óljóst hvert nákvæmt markmið er með þessari 150 þús. kr. takmörkun en ég geri ráð fyrir því að hv. fjárlaganefnd fari ítarlega yfir það. Ég veit að hv. 1. flutningsmaður þessa máls er í fjárlaganefnd þannig að ég geri ráð fyrir að hann taki spurningar þangað.

Hvað varðar áhyggjur af magni upplýsinga þá fer það inn á atriði sem er líka vert að hafa í huga, sem er framsetning gagnanna. Ef gögnin eru sett fram á tölvutæku formi má búast við því að þau verði nýtt og sett fram á ýmsan hátt sem fólk úti í bæ getur ákvarðað frekar en endilega Alþingi sjálft. Það er nefnilega þannig að ef upplýsingar eru lagðar fram á hráum gögnum, nú nota ég tæknihugtök eins og CSV, XML, eða einhverju því um líku, þá er mjög auðvelt fyrir einstaklinga úti í bæ, í frítíma sínum jafnvel, að búa til skýrar framsetningar á gögnum sem geta reynst mun betri en eitthvað sem Alþingi mundi sjá fyrir. Kosturinn við frelsið, eins og hv. þingmaður veit, er að maður sér ekki fyrir fram það góða sem getur komið út úr því.

En burt séð frá framsetningu gagnanna og tæknilegum atriðum hvað varðar 150 þús. kr. markið þá dettur mér einnig í hug að það sé hugsað út frá einhvers konar persónuverndarvinkli og því alveg þess virði að fara aðeins yfir það.

Gegnsæi og friðhelgi einkalífs er í meginatriðum spurning um vald, valdastöðu og einstaklinga. Eins og við Píratar segjum alltaf um gegnsæi og friðhelgi: Gegnsæi varðar yfirvöld. Yfirvöld eiga að vera gegnsæ. Einkalíf á ekki að verða gegnsætt. Friðhelgi einkalífs varðar einstaklinga. Yfirvöld hafa enga friðhelgi, ekki einkalíf. Það er mikilvægt að halda þessu til haga. Og vegna þess að hv. 4. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, fór hér stuttlega inn á skattframtöl og opinbera birtingu á þeim þá er það akkúrat spurning sem þvælist fyrir okkur, þar viljum við hafa gegnsæi. Þegar kemur að skattagögnunum vandast málið. Annars vegar er um að ræða stærstu og umsvifamestu aðilana í samfélaginu, og færa mætti rök fyrir því að þeir hafi völd og stjórni hlutum í samfélaginu, og hins vegar fólk sem hefur engin völd og býr jafnvel þvert á móti við mjög slæma stöðu hvað varðar frelsi til að framfylgja eigin vilja. Það eru einmitt grundvallaratriðin sem við eigum að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur birtingu eða ekki birtingu á skattagögnum eða fjárhagsupplýsingum ríkisins.

Þegar kemur að fjárhagsupplýsingum ríkisins, stofnunum sem eru 51% eða meira í eigu ríkisins, er algerlega sjálfsagt að birta slíkar upplýsingar. Ég sé engan friðhelgisvinkil hvað það varðar, hvort sem um er að ræða 150 þús. kr. eða eitthvað minna. Það sem skiptir mestu máli, og hér fer ég inn á það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um áðan, er að fólk sjái fyrir fram eftir hvaða reglum er spilað. Það er höfuðatriði.

Nú ætlast ég ekki til þess að hv. þingmaður útskýri þetta hér og nú, ég treysti því að hann fari með spurninguna til hv. fjárlaganefndar, en ég velti því fyrir mér hvort yfir höfuð þurfi að meðhöndla sérstaklega viðskipti þar sem fyrirtæki eða jafnvel einstaklingar gera langtímasamninga við ríkið og hafa kannski gert samninga á þeim forsendum að þetta séu gögn sem þeir geti haldið út af fyrir sig, kannski af viðskiptalegum eða samkeppnisástæðum, hver veit, og mundu kannski vilja breyta viðskiptasambandi í ljósi þess að gögnin verði opinber. Ég er ekki viss um að maður þurfi að hafa miklar áhyggjur af þessu en þetta er eitthvað sem hv. fjárlaganefnd getur kannski rætt og komist að því hvort einhver áhyggjuefni séu þar til að útkljá.

Aðalatriðið er að ef tímasetningin á nýjum reglum er ekki afturvirk þá sé ég engin vandamál við þetta. Að sama skapi er mjög mikilvægt að fólk viti að hverju það gengur þegar það er í viðskiptum við ríkið. Það held ég að sé mikilvægast í þessu gagnvart öllum spurningum um friðhelgi og trúnað o.s.frv., samkeppnissjónarmið og hvað eina.

Að öðru leyti ítreka ég stuðning minn við þetta góða mál. Ég vona innilega að það nái í gegn á þessu þingi.